9.6.2011

Fimmtudagur 09. 06. 11.

Pétur Gunnarsson skrifaði ritdóm í Fréttablaðið í dag um Rosabaug og gaf bókinni þrjár stjörnur. Egill Helgason heldur áfram að skammast í minn garð vegna bókarinnar og gefur mér nú nafngiftina „kommúnistaveiðari“. Hann hallar sér að Inga Vilhjálmssyni sem skrifaði um bókina í DV en þeir Egill og Reynir Traustason, ritstjóri DV, koma báðir við sögu í bókinni.

Nú er bókin á þrotum hjá útgefanda. Hann býr sig undir aðra prentun enda getur hann ekki annað pöntunum ef ég skil rétt. Fyrir aðra prentun gefst mér færi á að fara yfir textann og laga misfellur sem því miður má finna eins og verða vill þegar svo víða er leitað fanga.

Síðdegis leit ég inn í gamla hótel Loftleiðir sem nú hefur hlotið nýtt yfirbragð og nefnist Reykjavík Natura. Mér sýndust breytingarnar hafa heppnast vel, á fyrstu hæð er allt miklu léttara og bjartara en áður.