6.6.2011

Mánudagur 06. 06. 11.

Geir H. Haarde efndi til blaðamannadundar í dag og gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum vegna ákæru á hendur sér sem þingfest verður í landsdómi á morgun. Hann sagðist hafa fengið aðgang að öllum gögnum sem lögð voru fyrir þingmannanefnd undir formennsku Atla Gíslasonar, þingmanns vinstri-grænna.  Gögnin sýndu að aðeins einn sérfræðingur nefndarinnar, Geir nafngreindi hann ekki, hefði talið ástæðu til að nefndin  stefndi ráðherrum fyrir landsdóm.

Eftir blaðamannafund Geirs sneri visir.is sér til Atla Gíslasonar sem sagði:

„Ég lít svo á að nefndin [þingmannanefndin innsk. blm.] hafi tekið faglega ákvörðun, það eru skiptar skoðanir um það. Við fengum mjög færa lögvísindamenn til að ráðleggja okkur í þessari nefnd og ég taldi mig skila faglegri niðurstöðu. Að þetta séu pólitísk réttarhöld, ég er bara ósammála þeim ummælum fullkomlega."

Mér þótti undarlegt að lesa þetta mat Atla Gíslasonar í ljósi þess sem hann sagði um Baugsmálið og ég birti í Rosabaugi. Atli sagði:

„Upphafið [að Baugsmálinu] var pólitískt og eftirleikurinn eftir því. Ég er ósáttur við niðurstöðuna í málinu - menn uppskera eins og þeir sá. Málið var aðför frá upphafi til enda. Þetta er áfall fyrir réttarvörslukerfið."

Atli efaðist sem sé ekki um að húsleit lögreglu hjá Baugi, rannsókn hennar og ákæra hafi verði pólitísk en neitar því hins vegar að ákæra nefndar á vegum alþingis undir hans formennsku sé pólitísk. Hvernig dettur manninum í hug að bjóða nokkrum slíkan málflutning? Geir H. Haarde sýndi svart á hvítu á blaðamannafundi sínum að nefnd Atla vann starf sitt á skammarlegan hátt, rannsakaði ekki neitt sjálf heldur lét við það eitt sitja að gefa út ákæru að sögn Atla í skjóli ráðgjafar lögvísindamanna, en aðeins einn þeirra af öllum sem nefndin fékk til liðs við sig veitti þeim þetta ráð.