2.6.2011

Fimmtudagur 02. 06. 11

Í bók minni um Baugsmálið ræði ég ítarlega um Baugsmiðlanna og lýsi meðal annars samskiptum þeirra Gunnars Smára Egilssonar og Sigurðar G. Guðjónssonar en hinum síðarnefnda var bolað frá Norðurljósum til að rýma fyrir Gunnari Smára. Var greinilega kalt á milli þeirra. Það staðfestist enn eftir að Gunnar Smári hefur verið kjörinn formaður SÁÁ, því að þá skrifar Sigurður G. á fésbókarsíðu sína að best sé „fyrir þá sem leggja SÁÁ lið fjárhagslega að halda í féð svo Smárinn [Gunnar] noti það ekki til að kaupa prentsmiðju eða stofna blað í Las Vegas. Enginn veit hvar hann ber niður þegar fjárfestingagállinn er á honum.“

Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og formaður Framsóknarflokksins, skrifar grein á Pressuna um að fjárhagsvandi ríkja á evru-svæðinu sé ekki evrunni að kenna. Hann hallast greinilega að sjónarmiðum Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem flutti ræðu í þessa veru í Singapore eins og sjá má á evropuvaktin.is Í kvöld var rætt við utanríkisráðherra Portúgals í Hardtalk á BBC. Hann var ósammála Merkel og taldi að yrði ekki tekið á evru-málum og innflytjendamálum væri hætta á innri sprengju í ESB. Það væri ekki unnt að horfa fram hjá vanda jaðarríkja evru-svæðisins.

Jón Sigurðsson segir í grein sinni að jaðarríkin geti sjálfum sér um kennt. Hann vill kannski eins og Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, koma á fót fjármálaráðuneyti evru-svæðisins til að setja jaðarríkin í bóndabeygju? Trichet flutti ræðu um þetta í dag og má kynna sér efni hennar hér.

Grein Jóns boðar spennandi umræður um ESB-mál á vettvangi Framsóknarflokksins eftir að Ásmundi Einari Daðasyni, formanni Heimssýnar, er fagnað á þennan hátt við inngöngu hans í flokkinn. Má segja að Jón Sigurðsson sé kaþólskari en páfinn í útleggingu sinni á boðskapnum í þágu evrunnar.