1.6.2011

Miðvikudagur 01. 06. 11.

Eymundsson birti lista yfir sölu bóka síðustu viku í morgun. Bók mín Rosabaugur yfir Íslandi var efst á listanum yfir metsölubækur. Þessi gleðilega niðurstaða er í samræmi við þann áhuga á bókinni sem víða birtist mér.

Í dag ræddi ég við Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN . Við ræddum um störfin á alþingi. Birgir gerði glögga grein fyrir umræðum um það hvernig Steingrímur J. Sigfússon færði Íslandsbanka og Arion-banka í eignarhald kröfuhafa sem nú eru vogunarsjóðir eða aðrir sjóðir sem hafa mestan áhuga á að hagnast á því að knýja skuldara til að endurgreiða lán sín með vöxtum og verðtryggingu. Birgir taldi að Steingrímur J. hefði beitt sömu aðferð við að losa ríkið við þessa tvo banka og hann og Svavar Gestsson beittu við gerð Icesave I samningsins, það er þóknast kröfuhöfum og láta almenning standa undir kostnaðinum.

Þegar ég hlustaði á hvernig RÚV sagði frá umræðunum sem fram fóru í þinginu í morgun um eignarhaldið á bönkunum var lítið sagt efnislega frá málinu og að mestu látið við það sitja að birta einhverjar gamlar lummur eða upphrópanir Steingríms J. um Sjálfstæðisflokkinn. Þó var sagt frá því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segði það vekja spurningar af hverju íslensku bankarnir högnuðust um milljarða á sama tíma og heimilin og fyrirtækin væru í algerri lægð.

Áttar fréttastofa RÚV sig ekki á því hvað er að koma í ljós varðandi bankana og eignarhald á þeim? Einkavæðing Steingríms J. fór fram með leynd. Tilgangur hennar var hinn sami og hjá honum í Icesave-málinu að koma sjálfum sér í skjól en láta aðra sitja uppi með að greiða skuldirnar til erlendra lánardrottna.