Mánudagur, 31. 05. 10.
Síðdegis vorum við í Norræna húsinu, þar sem ég tók þátt í að afhenda verðlaun fyrir bestu lausnir í verkefnum undir merkjum samtakanna Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni (LBVRN), sem starfa undir forystu Fríðu Völu Ásbjörnsdóttur og fyrir dugnað hennar.
Viðurkenningu fyrir bestu lausnir hlutu grunnskólinn í Þorlákshöfn fyrir hjólastíg í Selvog, grunnskóli Reyðarfjarðar fyrir Reyðafjarðarhátíð tengda hernámsdeginu og grunnskóli Öndunarfjarðar fyrir hugmynd um fjölskyldugarð.
Ég átta mig ekki á því, hvernig prófessor í stjórnmálafræði getur komist að þeirri niðurstöðu, að leggja beri útkomu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í kosningunum á mánudag að jöfnu.
Styrmir Gunnarsson ræðir um úrslit sveitarstjórnakosninganna í ljósi ESB-umsóknarinnar í leiðara á Evrópuvaktinni í dag. Hann skoðar meðal annars fylgisþróun í Reykjavík hjá Sjálfstæðisflokki, vinstri-grænum og Samfylkingu í þingkosningum 25. apríl, 2009, og sveitarstjórnarkosningunum, 31. maí.
Samtals minnkar atkvæðafjöldi vinstri-grænna og Samfylkingar í Reykjavík um 24.000 atkvæði milli þessara kosninga, þar af Samfylkingar um 12.000 atkvæði (23.235 í 11.334) og vinstri grænna um 12.283 atkvæði (16.538 í 4.255). Á sama tima eykst fylgi Sjálfstæðisflokks um 4.289 atkvæði (15.717 í 20006). Hvaða fræðimaður, sem er annt um heiður sinn, getur sagt, að þessar tölur séu þess eðlis, að leggja beri útkomu Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að jöfnu?