28.5.2010

Föstudagur, 28. 05. 10

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, bar af í umræðum fulltrúa flokkanna í sjónvarpsumræðunum í kvöld. Hún er hin eina í hópnum með burði til að gegna embætti borgarastjóra. Hafi hún þurft enn að sanna það eftir  glæsilega forystu sína í borginni undanfarna mánuði, tókst henni það í kvöld.

Jón Gnarr hefði þurft að hafa betri handritshöfund en þann, sem samdi fyrir hann texta kvöldsins. Talið um hvítflibbafangelsi í Arnarholti var ekki fyndið og endurspeglaði þar að auki dæmalausa vanþekkingu á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Sóley Tómasdóttir, fulltrúi vinstri-grænna, fór með rolluna um illsku Sjálfstæðisflokksins vegna bankahrunsins. Engu er líkara en vinstri-grænir telji tímann standa í stað og enginn átti sig á því, að þeir bera ábyrgð á hruninu, sem við blasir eftir hrun með Icesave-fánann við hún.

Í dag hitti ég mann á förnum vegi. Átti ég við hann erindi, án þess að við hefðum hist áður eða þekktumst. Talið barst að kosningunum. Hann sagðist ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn að nýju á morgun. Hann hefði tekið hliðarspor og kosið framsókn í þingkosningunum, af því að Sigmundur Davíð lofaði 20% lækkun lána. Hann taldi, að sér mundi takast að fá sína nánustu ofan af því að kjósa Jón Gnarr. Ég er viss um, að sjónvarpsumræðurnar í kvöld auðvelda honum ætlunarverkið.