27.5.2010

Fimmtudagur, 27. 05. 10.

Var í hádegi í Öskju, húsi Háskóla Íslands, þar sem efnt var til fundar á vegum viðskiptafræðideildar skólans og RSE um efnið: Ísland - næstu skref. Getur Ísland rekið bankakerfi? Er til króna án hafta? Hvernig náum við efnahagslegu jafnvægi?

Framsögumenn voru prófessor Charles Wyplosz , ráðgjafi ríkisstjórna m.a. Frakklands, Rússlands og Kýpur og í stýrihópi forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í peninga- og efnahagsmálum, dr. Daniel Gros, framkvæmdastjóri Center for European Policy Studies og er stjórnarmaður í Seðlabanka Íslands og dr. Sigríður Benediktsdóttir kennari við hagfræðideild Yale Háskóla, átti sæti í rannsóknarnefnd Alþingis. Ragnar Árnarson prófessor setti fundinn en Ársæll Valfells stýrði honum.

Ísland getur rekið bankakerfi en ekki eins og það var fyrir hrun. Best væri að erlendur banki starfaði í landinu. Það er til króna án hafta en hún mun aldrei mega sín mikils og frekar þvælast fyrir en hitt. Við náum efnahagslegu jafnvægi með því að beita heilbrigðri skynsemi við hagstjórn.

Klukkan 17. 00 vorum við í Hönnunarsafninu í Garðabæ, sem var opnað í nýju og stærra húsnæði. Ég kom að því á sínum tíma að semja við Garðabæ um, að sveitarfélagið kæmi að rekstri safnsins. Hefur það vaxið stig af stigi og á aðeins bjarta framtíð fyrir sér.

Klukkan 18.30 vorum við í húsakynnum FÍH, þar sem Rut var gerð heiðurfélaga í Félagi íslenskra tónlistarmanna (FÍT), tuttugasti heiðursfélaginn í sögu félagsins.