Miðvikudagur, 26. 05. 10.
Kannanir benda til þess, að Besti flokkurinn verði sigurvegari borgarstjórnarkosninganna hér í Reykjavík.
Í alfræðiritinu Wikipedíu stendur:
„Þórðargleði er er sú „gleði“ að hlakka yfir óförum annarra. Uppruni orðsins mun vera úr Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar sem Þórbergur Þórðarson skráði. Séra Árni bjó til þetta orð út frá því að Þórður vinnumaður hans gladdist alltaf þegar rigndi í þurra töðuna á túninu hjá Þórði á Rauðkollstöðum, sem var nágranni þeirra.
Karen Blixen lýsir þórðargleði í bók sinni Jörð í Afríku en kallar meinfýsi sem er samheiti, þ.e. fögnuður yfir óförum annarra:
„Í eðli allra svertingja er rótgróin, óbugandi tilhneiging til meinfýsi, ómenguð gleði yfir því að sjá eitthvað misheppnast, tilhneiging, sem hlýtur að koma ónotalega við Evrópumenn. -- Þennan eiginleika þroskaði Kamante [þ.e. kokkur Karenar og þjónn] hjá sér, svo að hann náði óvanalegri fullkomnun, hann þroskaði meira að segja hjá sér sérstaka tegund sjálfshæðni, svo að hann gat haft skemmtun af sínum eigin óhöppum og vonbrigðum rétt eins og í hlut ætti óviðkomandi fólk.““
Mér dettur þetta orð, þórðargleði, í hug, þegar ég heyri menn gleðjast yfir því, að Besti flokkurinn verði stærsti flokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur að loknum kosningunum næsta laugardag.
Reykvíkingar geta með atkvæði sínu komið í veg fyrir, að aðrir hafi ástæðu til að gleðjast yfir óförum þeirra í kosningunum. Þeir geta ekki skellt skuldinni á aðra, kjósi þeir Besta flokkinn yfir sig - og eru ekki sjálfskaparvítin verst?