20.5.2010

Fimmtudagur, 20. 05. 10.

Frá því var sagt í fréttum í gær, að Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði ákveðið að gefa kost á sér til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi flokksins, sem verður 25. og 26. júní. Ég ræddi við Ólöfu í þætti mínum á ÍNN miðvikudaginn 10. mars sl. Þáttinn má sjá hér.

Eins og í þættinum sést, er Ólöf óhrædd við að setja fram skoðanir sínar og rökræða þær. Einnig vekur athygli, þegar þátturinn er skoðaður, að ekkert hefur gerst af því, sem þá var talið, að ríkisstjórnin hefði á prjónunum til að bregðast við niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 6. mars. Sannar það enn, að undir forystu Jóhönnu og Steingríms J. ríkir algjör kyrrstaða í landstjórninni. Segja má, að eina lífsmarkið sé, þegar vinstri-grænir reyna að bregða fæti fyrir áform um að blása lífi í atvinnustarfsemi og framkvæmdir.

Á Hrafnaþingi Ingva Hrafns Jónssonar á ÍNN í kvöld sat fyrir svörum Eysteinn Helgason, forstjóri Kaupáss, fyrirtækisins, sem á og rekur Nótaúnsbúðirnar, Krónuverslanirnar og fleiri verslanir. Ekki fór á milli mála, að Eysteinn telur illa haldið á stjórn landsins. Hann sagði, að með hækkun skatta á einstaklinga og fyrirtæki væri stefnt að meiri stöðnun og atvinnuleysi. Eysteinn minnti á, að um 15.000 manns væru nú atvinnulausir og undraði sig á því, að svo til ekkert væri um það rætt, að jafn fjölmennur hópur fólks hefði ekki á höndum nein verkefni, sem stuðluðu að verðmætasköpun.