19.5.2010

Miðvikudagur, 19. 05. 10.

Í kvöld ræði ég við Sigurð Kára Kristjánsson, alþingismann, í þætti mínum á ÍNN. Við ræðum stöðu mála á alþingi og dæmalaus svör Jóhönnu Sigurðardóttur um launamál Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra.

Ég ræði einnig lítillega um nýja bók Styrmis Gunnarssonar Hrunadans og horfið fé en útgáfuhóf vegna hennar var haldið í Eymundsson við Skólavörðustíg klukkan 17.00 í dag.

Í bók sinni bregður Styrmir skýru ljósi á þá kafla í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis um bankahrunið, sem honum finnst mestu skipta. Þar sannast enn, hve áherslur þeirra eru rangar, sem vilja draga úr ábyrgð bankamannanna sjálfra á því, hvernig fór fyrir fyrirtækjum þeirra.

Þegar bókin er lesin nú á tímum mikilla hremminga í fjármálum á evru-svæðinu, sést, að hinn mikli munur er á stöðu okkar Íslendinga haustið 2008 og stöðu evru-ríkjanna nú, að þá stóð ríkissjóður okkar vel og vandinn stafaði ekki af slakri stöðu ríkisfjármálanna eins og er í evru-löndunum.