16.5.2010

Sunnudagur, 16. 05. 10.

Nú líður að lokum dvalar minnar í Zürich að þessu sinni. Við ókum í dag tæplega 50 km suður af borginni að Rheinfall, fossinum mikla í Rín. Fjöldi manns skoðaði þar þetta náttúruundur. Fossinn er sagður hinn stærsti á meginlandi Evrópu. Greitt er fyrir að fara inn í kastala við fossinn og þaðan inn á vandaðar göngubrautir svo nálægt honum að með ólíkindum er. Fyrir neðan vatnsfallið eru bátar, sem flytja gesti upp að fossinum auk þess, sem unnt er að klífa höfða í fljótinu handan við kastalann.

Okkur var hugsað til aðstöðunnar við Gullfoss, þegar við fórum þarna um með ung börn, sem nutu fullkomins öryggis eins og fullorðnir. Er í raun með ólíkindum, að ekki skuli hafa verið gengið betur frá aðgengi að Gullfossi eða Geysi, þar sem hundruð þúsunda ferðamanna fara um á hverju ári.

Svisslendingar almennt hafa ekki miklar áhyggjur af evru-krísu landanna við öll landamæra þeirra. Ríkisfjármálin eru í lagi hjá þeim og svissneski frankinn stendur fyrir sínu. Þegar ástandinu í Evrópu á liðandi stundu er líkt við stríðstíma á 20. öld, eru Svisslendingar jafnöruggir og á stríðsárunum. Land þeirra er eins og vin í eyðimörkinni. Þeir blönduðu sér aldrei á beinan hátt í heimsstyrjaldirnar. Á hinn bóginn veittu þeir mörgum skjól, sem til þeirra leituðu.

Svissneska ríkisstjórnin útilokar ekki, að hún rétti nágrönnum sínum fjárhagslega hjálparhönd, þótt hér heyrist raddir, að þegar sé nóg að gert í því efni. Svisslendingar fagna því, að hafa ekki gengið í Evrópusambandið og þar með gengist undir þá skyldu að falla frá eigin gjaldmiðli og taka upp evru.