13.5.2010

Fimmtudagur, 13. 05. 10.

Erlendir sérfræðingar slitastjórnar Glitnis hafa vafalaust kynnt sér Baugsmálið, fjölmiðla og pólitíska moldviðrið vegna þess og ráðlagt, að Jón Ásgeir Jóhannesson yrði sóttur til saka í London og New York. Hvorki Hreinn Loftsson né aðrir Baugsvinir hafa þar vettvang til að spinna samsærisþráðinn. Jóhannes í Bónus verður ekki heldur í fjölmiðlum til að lýsa yfir því, að 98%  alþýðu manna standi með sér.  Þorvaldur Gylfason, Hallgrímur Helgason og Guðmundur Andri Thorsson skrifa ekki dálka í staðarblöðin. Egill Helgason stjórnar ekki umræðuþætti eða stundar blogg til að hafa áhrif á á almenningsálitið. Lögfræðingar á sömu lögmannsstofu tjá sig ekki opinberlega sem óhlutdrægir álitsgjafar til stuðnings málflutningi starfsfélaga sinna í réttarsalnum. Fyrrverandi prófessorar við lagadeild eins háskóla ráðast ekki á kennara við lagadeild annars háskóla fyrir að telja æskilegt, að ákæruvald leiti álits æðri réttar á lögfræðilegu vafamáli. Jón Ásgeir á ekki vísan aðgang að vinsælustu umræðuþáttum í sjónvarpi, þegar honum kemur best vegna tímasetninga í málaferlum. Öllum er sama, þótt hann klagi Davíð Oddsson og saki hann um samsæri.

Listinn yfir eignir Jóns Ásgeirs verður ekki túlkaður af spunaliðum hans á Íslandi. Á hann verður lagður alþjóðlegur kvarði. Baugur ætlaði jú að leggja undir sig heiminn að sögn vildarvina Jóns Ásgeirs í Baugsmiðli sumarið 2007 en þar var Jón Ásgeir einnig sagður „góðhjartaður milljarðamæringur sem lætur gott af sér leiða.“