12.5.2010

Miðvikudagur, 12. 05. 10.

Stórfréttir skortir ekki þessa dagana. Þær skyggja hver á aðra. Ósannindi Jóhönnu Sigurðardóttur með stuðningi Steingríms J. Sigfússonar eru til marks um atvik, sem fellur í gleymskunnar dá, sé því ekki fylgt eftir. Ég hef enga samúð með Jóhönnu í þessu máli og furðu sætir, að fjölmiðlamenn skoði ekki þingræður hennar um ráðherra og kröfur hennar um afsögn þeirra vegna mála, sem voru mun veigaminni en framkoma hennar gagnvart alþingi og þjóðinni allri vegna launamála Más, seðlabankastjóra.

Jón Ásgeir Jóhannesson er í felum, eftir að leitað hefur verið til dómstóla í London og New York til að koma lögum yfir hann og kyrrsetja eignir hans. Hið furðulega er, að hann er enn haldinn þeirri þráhyggju, að Davíð Oddsson standi á bakvið málaferli gegn sér. Ætli Hreinn Loftsson riti ekki enn eina hatursgreinina til stuðnings Jóni? Hverja ætli Hreinn telji nú í náhirðinni?

Upptaka Íslendinga á evru hefur verið helsta baráttumál íslenskra ESB-aðildarsinna hin síðari misseri. Aðild að evru-svæðinu er líklega óvinsælasta pólitíska baráttumálið, sem nokkrum heilvita manni dytti í hug að hampa á líðandi stundu. Hvað verður næst talið okkur helst til heilla með ESB-aðild?

Að mest traust skuli borið til Steingríms J. Sigfússonar af íslenskum stjórnmálamönnum, sýnir, hve illa er komið fyrir íslenskum stjórnmálum. Enginn maður hefur svikið jafnmörg kosningaloforð og hann eða gætt hagsmuna þjóðarinnar jafnhraksmánarlega og hann með Icesave-samningunum.