11.5.2010

Þriðjudagur, 11. 05. 10.

Flugum frá Keflavík til Kaupmannahafnar í morgun með Icelandair. Brottför seinkaði aðeins. þegar beðið var eftir fimm farþegum, sem töfðust við innritun, enda var óvenjulega mikið um að vera við innritun í brottfararsalnum. Að öðrum þræði stafaði töfin örugglega af því, að starfsfólk var ókomið frá Glasgow og Akureyri, þar sem það hafði verðl að sinna skyldum sínum vegna goslokunar í Keflavík. Á leiðinni yfir landið sáum við gosmökkinn í suðri og norður á Húnaflóa og í Skagafjörð. Frá Kaupmannahöfn flugum við til Zürich. Lentum þar klukkan 15.30 að íslenskum tíma.

Las á mbl.is:


„Áætlun ríkisstjórnarinnar um sameiningu ráðuneyta getur sparað allt að 350 milljónir króna að sögn Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra. Hann segir sparnaðinn fyrst og fremst liggja því að leggja niður dýr starfsgildi eins og ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og sambærileg störf. 

Einkum er rætt um að sameina Heilbrigðis- og Félagsmálaráðuneytið í Velferðarráðuneyti og loks Sjávarútvegs- landbúnaðar og iðnaðarráðuneytið í Atvinnuvegaráðuneyti.

Málið hefur verið viðkvæmt innan stjórnarheimilisins, einkum meðal Vinstri grænna sem hugnast ekki sameining, landbúnaðar- sjávarútvegs og iðnaðarráðuneytisins í eitt Atvinnuvegaráðuneyti.“

Þetta sannar mér aðeins, hve vitlaus áform ríkisstjórnarinnar  um breytingar á stjórnarráðinu eru. Auðvitað stangast algjörlega á við markmiðin um að styrkja innviði stjórnsýslunnar að fækka best launaða fólkinu innan hennar og svipta hana menntun og reynslu þess.

Styðjist þessi gjöreyðingarþörf stjórnarflokkanna við niðurstöðu rannsóknarnefndar alþingis á bankahruninu, sannar það aðeins alvarlega brotalöm í  skýrslunni og þekkingarleysi höfunda hennar á því góða starfi, sem unnið er innan stjórnarráðsins.

Þingmenn Samfylkingar og vinstri-grænna hafa árum saman býsnast yfir of miklum áhrifum stjórnarráðsins gagnvart alþingi. Sé tilgangurinn að nota hrunskýrsluna af hálfu stjórnarflokkanna til að rústa stjórnarráðið, er ástæða til rísa til varnar. Mig undrar, að starfsmenn stjórnarráðsins og þess félags, sem gætir hagsmuna starfsmanna ríkisins, skuli ekki rísa til varnar. Með því að vega að ráðuneytisstjórum og skrifstofustjórum kippa ráðherrar löppunum undan allri fagmennsku í störfum ráðuneyta.