9.5.2010

Sunnudagur, 09. 05. 10.

Var við messu í Þingvallakirkju klukkan 14.00, þar sem séra Kristján Valur Ingólfsson, Þingvallaprestur, minntist Sigurðar K. Oddssonar, þjóðgarðsvarðar, sem lést á síðasta ári. Kirkjan var þéttsetin og athöfnin hátíðleg. Veðrið var einstaklega gott. Þegar ekið var yfir Mosfellsheiði mátti sjá mökkinn frá gosinu í Eyjafjallajökli stíga til himins.

Ríkisstjórnin er að berja saman fjárlögum fyrir árið 2011á aukafundi, sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum í dag.  Látið er í veðri vaka, að fjárlagagerðin ráðist af því, hvort frumvarp til laga um fækkun og stækkun ráðuneyta verði lagt fram og hljóti samþykki. Þetta er aðeins enn ein reykbomban, sem sprengd er í kringum ríkisstjórnina. Að sjálfsögðu ræðst afkoma ríkissjóðs ekki af fjölda ráðuneyta heldur hinu, hvort atvinnu- og efnahagslífið blómstrar eða ekki. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til skattafjötra, sem eru öruggasta úrræðið til að kæfa frumkvæði og framtak. Rikisstjórnin er á flótta undan veruleikanum, ef hún heldur að fjárlagavandinn ráðist af fjölda ráðuneyta. Eða eru það kannski bara grunnhyggnir fjölmiðlamenn, sem ýta undir þetta ráðuneytatal?

Stækkun ráðuneyta er alls ekki skynsamlegasta leiðin til að styrkja stjórnsýsluna. Hún batnar ekki við að fella saman undir einn hatt málefni, sem eru óskyld. Samhæfingu innan stjórnarráðsins er unnt að efla og styrkja á mun skynsamlegri hátt en með því að stækka ráðuneyti. Þá er einnig alröng stefna að auka hlut forsætisráðuneytisins með því að koma þar á fót lagaskrifstofu, sem á að verða með nefið ofan í lagasmíð annarra ráðuneyta. Með því er grafið undan metnaði innan fagráðuneyta og sérfræðingar þar gerðir ósjálfstæðari.