Fimmtudagur, 06. 05. 10.
Af ummælum frjálslyndra, sem rætt er við í Sky News, má ráða, að þeir séu vonsviknir vegna spánna, sem sýna þá með færri þingmenn en skoðanakannanir sýndu.
Furðulegt var að heyra Jóhönnu Sigurðardóttur tala á þann veg í þingi, að einhver óvissa væri um inntak reglna um, hvernig fólk sé ráðið til starfa í stjórnarráðinu. Hún þyrfti ráð nefndar fólks utan stjórnsýslunnar til að lýsa fyrir sér inntaki reglnanna. Aumara svar forsætisráðherra um innri málefni stjórnarráðsins hef ég ekki heyrt. Sannar enn, hve óhæf Jóhanna er til að gegna embætti forsætisráðherra.
Ekki tók betra við í þinginu, þegar Jóhanna var spurð um, hver hefði lofað Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra, ákveðnum launakjörum, þegar hann kom til starfa. Ef það hefur ekki verið Jóhanna, hefur einhver komið fram fyrir hennar hönd og gefið Má loforðið - ef ekki, er Már staðinn að ósannindum. Segi Jóhanna alþingu ósatt, ber henni að segja af sér.
Engu er líkara en Jóhanna og Már telji sig komast upp með að gera Láru Júlíusdóttutr, hrl., að blóarböggli í launamáli Más. Stóra spurningin er: Samrýmist það skyldum Láru sem lögmanns að hylma yfir með forsætisráðherra og seðlabankastjóra í þessu máli? Lára hefur vissulega heiður að verja - ætlar hún að fórna honum í þessu máli?