5.5.2010

Miðvikudagur, 05. 05. 10.

Í dag ræði ég við Hildi Sverrisdóttur, lögfræðing og frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum. á ÍNN, útsending fyrst kl. 21.30 í kvöld.

Hér er viðtal mitt við Kristínu Þórðardóttur, staðgengil sýslumannsins á Hvolsvelli og frambjóðanda sjálfstæðismanna í Rangárþingi eystra.

Í dag kl. 16.00 í Norræna húsinu var í þriðja sinn úthlutað rannsóknarstyrkjum Bjarna Benediktssonar, það er úr sjóði, sem var stofnaður  30. apríl, 2008, á 100 ára afmæli Bjarna til að styrkja rannsóknir á sviði lögfræði og sagnfræði.

Björg Thorarensen, prófessor, var formaður úthlutunarnefndar á sviði lögfræði og í ár hlaut Kristín Benediktsdóttir, doktorsnemi við lagadeild Háskóla Íslands, eina milljón kr. til rannsóknar á réttarstöðu aldraðra.

Anna Agnarsdóttir, prófessor, er formaður úthlutunarnefndar á sviði sagnfræði og í ár hlutu styrki: dr. Þór Whitehead, prófessor, 500 þús. krónur til rannsókna á Íslandi í síðari heimsstyrjöldinni eftir hernám Breta og Sigríður Matthíasdóttir, hugvísindastofnun Háskóla Íslands hlaut 500 þús. kr. til að rannsaka hugmyndir og viðhorf í stjórnarstefnu viðreisnarstjórnarinnar á sviði velferðar- og menntamála.

Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur við lagastofnuin Háskóla Íslands, sem hlaut rannsóknarstyrk árið 2009, flutti erindi um rannsóknir á kvótakerfinu, doktorsverkefni sitt.

Gunnar Þór Bjarnason, sagnfræðingur, sem hlaut rannsóknarstyrk árið 2009 flutti erindi um heimastjórn, fullveldi og umheiminn.

Sjóðurinn er í vörslu Rannís og starfsmenn þar sjá um umsýslu hans gagnvart umsækjendum og við úthlutun styrkja.