1.5.2010

Laugardagur, 01. 05. 10.

Ætli nokkur ríkisútvarpsstöð í Evrópu fyrir utan RÚV hafi það sem fastan dagskrárlið eftir hrun kommúnismans að leika „Nallann“ hinn 1. maí. Í hádegi í dag var það meira að segja gert bæði á undan hádegisfréttum og í fréttatímanum sjálfum. Þá fór einstaklega vel á því að ræða stjórnmálaástandið við Svan Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, í sama fréttatíma. Það hefði mátt leika lagið undir boðskap Svans.

Síðdegis ók ég austur í Fljótshlíð og inn fyrir Þórólfsfell en þaðan sást vel til Gígjökuls og gufustrókanna efst í honum, þar sem hraunið úr Eyjafjallajökli bræðir sér leið niður. Hvítir bólstrarnir voru norðan í jöklinum en svartur strókurinn barst Gosmynd 1. maítil suðausturs. Þegar við dvöldumst þarna, hreinsaði jökullinn sig og við sáum bæði hvíta og svarta bólusturinn teygja sig til himins.

Við ókum suður með Markarfljóti og síðan í austur undir Eyjafjöllum að Þorvaldseyri en yfir bænum var svartur mökkurinn. Þar var dálítill hópur fólks, sem tók myndir af bænum og mekkinum.

Dálítil aska hefur greinilega fallið hér hjá okkur í Fljótshlíðinni ég sé það á stéttum við húsin.