30.9.2009

Miðvikudagur, 30. 09. 09.

Við Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, ræddum saman í þætti mínum á ÍNN, sem sýndur verður þar í kvöld klukkan 21.30. Þáttinn má nálgast á www.inntv.is. Viðræður okkar snerust um utanríkis- og öryggismál með sérstakri áherslu á norðurslóðir.

Í tilefni af afsögn Ögmundar Jónassonar úr embætti heilbrigðisráðherra í dag ritaði ég pistil og líkti ákvörðun Ögmundar við afsögn Jóhönnu Sigurðardóttur 21. júní 1994. Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, líkti afsögn Ögmundar við brottför Björgvins G. Sigurðssonar 25. janúar sl. Sá samanburður er ekki sannfærandi. Þá nefndi Guðni Th. afsögn Jóhanns Sæmundssonar úr utanþingsstjórninni 1942 til 1944. Hvernig getur ópólitískur ráðherra sagt sig úr ópólitískri stjórn á pólitískum forsendum?

Næsta skrýtið er að hlusta á vinstri-græna þingmenn tala á þann veg, að enginn brestur sé í stjórnarsamstarfinu. Jóhanna var hins vegar ekki eins örugg með sig í fréttum kvöldsins. Í pistli mínum tel ég, að forsætisráðherratími Jóhönnu sé að renna sitt skeið. Hennar tími hefur nú staðið í átta raunalega mánuði.