28.9.2009

Mánudagur, 28. 09. 09.

Á Kastrup-flugvelli komst ég ekki hjá því frekar en aðrir, sem sátu í nágrenni mannsins, sem var í tölvusímtali tímunum saman, að heyra, að hann var að koma frá Íslandi. Þar virðist hann stunda einhver viðskipti. Hann sagðist lítið geta hreyft við þeim vegna ástandsins í landinu. Líklega væri um tapað fé að ræða, enda stefndi allt í annað hrun á Íslandi, að minnsta kosti undir þeirri ríkisstjórn, sem nú sæti.

Þetta var boðskapurinn, sem ég heyrði í Kastrup-flugstöðinni, ári eftir hrunið. Á ráðstefnunni í síðustu viku um þróun mála á norðurslóðum  í Kaupmannahöfn var meðal annars rætt um líkur á því, að Grænland yrði sjálfstætt. Nefndi einn fundarmanna Ísland sem dæmi um, að eyríki í norðri gætu ráðið við sjálfstæði sitt og fór þá hláturkliður um salinn.

Clive Archer, prófessor emeritus við Manchester háskóla, sem oft hefur komið til Íslands og sat í pallborði á ráðstefnunni sagði, að vissulega mætti álykta á þann veg, að Íslendinga hafi skort þekkingu og reynslu til að takast á við tækifærin í hnattvæddu fjármálakerfi.

Ef marka má sjónvarpið er Danmörk á öðrum endanum yfir því, að Barack Obama og frú hafa skyndilega ákveðið að koma til Kaupmannahafnar í lok vikunnar til að vinna því stuðning, að Chicago verði Olympíuborg árið 2016. Danir hafa velt því fyrir sér mánuðum saman, hvort Obama verði á loftlagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í lok desember. Síðan ákveður hann allt í einu að koma til að beita áhrifum sínum gagnvart Alþjóðaolympíunefndinni.