27.9.2009

Sunnudagur, 27. 09. 09.

Erum komin að nýju til Sjálands að loknum rúmlega 1000 km akstri um Fjón og Jótland. Safnið um H. C. Andersen í Odense gefur góða yfirlitsmynd af skáldinu. Hann var kominn á efri ár, þegar hann hlaut viðurkenningu heimabæjar síns.

Ég endurtek þá skoðun mína, eftir að hafa farið yfir blogg og önnur skrif á heimavelli, að framtíð blaða ræðst af því, hvort þau standast breytta tíma og nýjar leiðir til að miðla fréttum og skoðunum. Ritstjórar skipta vissulega miklu en mestu skiptir, að blöð flytji og kynni efni sitt á þann hátt, að einhver vilji kaupa þau eða auglýsa í þeim.

Í kvöld bárust fréttir af sigri Angelu Merkel í Þýskalandi og tapi sósíaldemókrata. Ný stjórn kristilegra og frjálslyndra verður mynduð í landinu. Áform um skattalækkanir eru boðuð.  Sósíalistum, gömlum kommúnistum og sósíal-demókrötum, skattahækkunarflokkunum, var hafnað. Í Þýskalandi vita menn, að haldi ríkið sér til hlés eru meiri líkur á að efnahagur batni en ryðji það einkaframtakinu til hliðar, eins og er að gerast hjá okkur Íslendingum.