Föstudagur, 25. 09. 09.
Fórum með ferju frá Böjde á Fjóni til Fynshavn á Jótlandi og ókum þvert yfir það og síðan með ströndinni allt norður undir Thisted, um 350 km leið.
Dagblöð berjast víða í bökkum og þeim fækkar óðfluga, einkum í Bandaríkjunum. Nyhedsavisen sem Gunnar Smári Egilsson hleypti af stokkunum hér í Danmörku í nafni Baugs, leið undir lok og stórfé tapaðist. Danskir blaðaútgefendur þurftu að taka á honum stóra sínum til að blöð þeirra héldu lífi. Er enn mikil óvissa í dönskum blaðaheimi.
Morgunblaðið heldur enn velli og fjármagnssterkir aðilar komu að því að tryggja útgáfu þess eftir bankahrunið. Þeir hafa nú gripið enn á ný til sparnaðarráðstafana. Mörgum gömlum og góðum samstarfsmönnum mínum á blaðinu á sínum tíma hefur verið sagt upp störfum.
Nýir ritstjórar, Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen, hafa verið ráðnir að blaðinu.
Skiptir mestu, að nýjum eigendum takist að halda lífi í Morgunblaðinu við núverandi aðstæður. Þeir hafa fest þar mikið fé.
Baugsmiðlarnir hafa verið, eru og verða málpípur Bónusfjölskyldunnar og vina hennar. Hvernig þeir halda velli, þegar Baugsveldið er hrunið, er rannsóknarefni. Fjármálaeftirlitsins? Rannsóknarnefndar alþingis? Sérstaks saksóknara?