23.9.2009

Miðvikudagur, 23. 09. 09.

Sat í dag ráðstefnu á vegum Dansk Institut for Militære Studier í Nordatlantens Brygge-húsinu í Kaupmannahöfn um þróun mála á norðurskautinu, undir heitinu On Thin Ice - Climate Change and Arctic Security in the 21st Century. Sjónarmið Dana með hliðsjón af Grænlandi, Bandríkjamanna, Rússa og Kínverja voru sérstaklega kynnt, auk þess sem John Ikenberry, prófessor við Princeton-háskóla, flutti fyrirlestur um stöðu og þróun alþjóðamála.

Þetta er enn ein ráðstefnan, sem haldin er um geopólitískar breytingar í okkar heimshluta. Einkennilegt er, að umræður um íslensk utanríkis- og öryggismál skuli ekki frekar snúast um þessar breytingar og áhrif þeirra á stöðu Íslands en spurninguna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, ætlar einmitt að selja Evrópusambandinu Ísland út á þessar breytingar. Hann veit sem er, að áhrifaríki innan sambandsins hafa meiri áhuga á að komast að Norðurskautinu en að Ísland gerist aðili að ESB.

Enn sannar þessi ráðstefna mér, hve fráleita og skammsýna ákvörðun Bandaríkjastjórn tók, þegar hún kallaði varnarliðið frá Íslandi.

Ég sé á vefsíðum, að Ólafur Ragnar hefur sagt eitthvað um íslenska bankamenn við Bloomberg-fréttasjónvarpið, síðan dregið það til baka og kennt fréttamanni um vitleysuna. Ég hef áður lagt til, að uatnríkisráðuneytið eigi vitni að viðtölum Ólafs Ragnars við erlenda fjölmiðla. Eftirlitsmaðurinn gæti að minnsta kosti staðfest, að Ólafur Ragnar hefði ekki sagt neina vitleysu við fréttamanninn.