Sunnudagur, 20. 09. 09.
Þótt spáð hefði verið mikilli rigningu á Suðurlandi í dag, var veðrið gott í Fljótshlíðarrétt í morgun. Í fyrrinótt gránuðu fjöll eins og sjá mátti á Heklu, þegar við héldum af stað í smalið og það þurfti að skafa frost af bílrúðum í birtingu við rætur Fljótshlíðar. Í morgun var hins vegar, hvassara, hlýrra og meiri væta. Fjöldi manns var í réttunum og lauk þeim að mestu uppúr hádeginu.
Í kvöldfréttum var boðað, að auka ætti tekjuöflun ríkissjóðs um 28 milljarði króna með því að hækka skatta og finna nýja. Vinstri-grænir hafa aldrei skilið, að auka megi tekjur ríkssjóðs með því að lækka skatta. Þótt tölur hafi sannað þetta, hafa þær sannanir ekki dugað til að hafa áhrif á skoðanir Steingríms J. og Ögmundar. Nú hafa þeir ákveðið með Samfylkingunni að lækka laun einstaklinga og hækka á þá skatta. Flest fyrirtæki eru beint eða óbeint komin undir forsjá ríkisins. Gengist er undir Icesave-skuldaokið og látið eins og það sé illmennska að sætta sig ekki möglunarlaust við það. Slegin er skjaldborg um þjóðina út á við með því færa stjórn fiskveiða í hendur Evrópusambandsins og leggja af íslenskan landbúnað. Um þetta allt hefur ríkisstjórnin myndað 20/20 sóknaráætlun undir stjórn Dags B. Eggertssonar. Engan þarf að undra, að þeir, sem þannig stjórna, segist ætla að vaða eld og brennistein til að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum.