17.9.2009

Fimmtudagur, 17. 09. 09.

Var í Háskólanum í Reykjavík klukkan 13.30 og ræddi við MBA-nema um nýskipan lögreglumála undir þeim formerkjum að lýsa hlutverki leiðtoga við breytingastjórn. Kanadískur prófessor hefur skrifað um ferlið frá því í nóvember 2003 fram til 1. janúar 2007, þegar unnið var að nýskipan lögreglumála með fækkun umdæma úr 26 í 15.

Líflegar umræður voru um efnið og spurningar fleiri en tíminn leyfði. Er gaman að kynnast því, hve þátttakendur í náminu eru virkir í tímum sem þessum. Spurningunum rigndi yfir mig.

Á leiðinni austur í Fljótshlíð heyrði ég fréttir af óformlegu svari Breta og Hollendinga við Icesave-fyrirvörunum. Þeir hafna greinilega mikilvægum þætti fyrirvaranna og þingflokkur sjálfstæðismanna segir ekki unnt að samþykkja svörin. Jóhanna Sigurðardóttir virtist vilja hespa málið af, sem kemur ekki á óvart, því að það hefur frá upphafi verið stefna hennar og Samfylkingarinnar. Steingrímur J.  var á móti fyrirvörunum, svo að honum er sama, þótt Bretar og Hollendingar séu það líka.

Hið furðulega í þessu máli er, að ríkisstjórnin vill samþykkja afarkosti en alþingi tók fram fyrir hendur á henni. Nú eru oddvitar ríkisstjórnarinnar enn á máli þeirra, sem vilja setja þjóðinni afarkosti.

Fram í myrkur vorum við að ná í hesta og járna til að búa okkur undir leitirnar um helgina.