Miðvikudagur, 09. 09. 09.
Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, flutti í dag erindi í hátíðarsal Háskóla Íslands í tilefni af komu sinni hingað til að afhenda Jóhönnu Sigurðardóttur 2500 spurningar frá framkvæmdastjórn ESB, sem hún þarf að fá svarað í nóvember, svo að hún geti lagt mat á aðildarumsókn Íslands. Spurningarnar eru birtar á netinu.
Nýlega var sagt frá því, að Svartfellingar hefðu ráðið 1000 manns til að svara sambærilegum lista vegna ESB-aðildarumsóknar þeirra. Hér er ætlunin, að embættismenn ráðuneyta svari í hjáverkum. Svörin við spurningunum eru misjafnlega löng, þeim ber að skila á ensku. Nefnt er, að blaðsíður með svörunum hafi í sumum löndum nálgast 50.000. Í Baugsmálinu var sagt, að málsskjölin væru um 20.000 blaðsíður og þótti mörgum nóg um.
Í dag fluttu fjölmiðlar fréttir af því, að umboðsmaður alþingis hefði 4. september gefið álit á ráðningu Einars Karls Haraldssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns Össurar Skarphéðinssonar, til Landspítalans. Umboðsmaður gagnrýnir, hvernig að málinu var staðið af hálfu Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra spítalans, og segir hana til dæmis hafa skýrt rangt frá því, hvað knúði á um ráðningu Einars Karls. Jóhanna Sigurðardóttir hefur nú ráðið Einar Karl sem upplýsingafulltrúa sinn. Samkvæmt áliti umboðsmanns hefði átt að auglýsa það starf en ekki ráða Einar Karl beint.
Hulda Gunnlaugsdóttir hefur nú verið ráðin til að aðstoða Ögmund Jónasson í heilbrigðisráðuneytinu. Spyrja má, hvort Ögmundur hefði ekki átt að auglýsa það starf.
Ráðherrar þurfa ekki að auglýsa starf eins aðstoðarmanns en meginreglan er, að önnur störf skuli auglýst. Eftir höfðinu dansa hins vegar limirnir. Úr því að sjálf Jóhanna, sem í stjórnarandstöðu var alltaf með vöndinn á lofti gagnvart ráðherrum, ræður Einar Karl án auglýsingar, telja minni spámenn í ríkisstjórninni sér heimilt að gera slíkt hið sama.
Stöð 2 sagði í dag, að 12 ráðherrar væru nú með 17 aðstoðarmenn.