Þriðjudagur, 08. 09. 09.
Í dag fékk ég að kynnast TF SIF, hinni nýju flugvél landhelgisgæslunnar, og fullkomnum tæknibúnaði um borð í henni. Vélin var tekin í notkun 1. júlí og hefur reynst afar vel. Tækjakostur hennar veldur byltingu í öllu eftirliti á Norður-Atlantshafi. Svíar eiga þrjár eins vélar og hefur reynst hagkvæmt að hafa átt samleið með þeim. Miklu skiptir, að þannig sé um hnúta búið, að vélin nýtist sem best og ætti til dæmis að huga að enn nánara samstarfi við Dani og Norðmenn.
Danir hafa ákveðið að efla styrk sinn á norðurslóðum með því að sameina herstjórnir sínar í Færeyjum og Grænlandi. Er á döfinni að velja stað fyrir nýja, sameiginlega herstjórn. Brýnt er fyrir landhelgisgæsluna að tengjast henni sem best. Með nýja varðskipinu Þór næsta sumar og nýju flugvélinni ráða Íslendingar yfir fullkomnustu eftirlits-, leitar- og björgunartækjum, sem gagnast munu þjóðinni og öllum, sem leggja leið sína um N-Atlantshaf, í marga áratugi.