7.9.2009

Mánudagur, 07. 09. 09.

Qi gong æfingar hófust að nýju að Efstaleiti í morgun klukkan 08.10 og var þátttaka góð. Gunnar Eyjólfsson leiddi fyrsta tímann. Ákveðið hefur verið að bjóða einnig tíma klukkan 07.00 á sama stað og sömu daga, það er mánudaga, miðvikudaga og föstudaga.

ESB-aðildarsinnar, sem segja veika krónu helstu ástæðu áhugans á aðild, hafa ekki vakið sérstaka athygli á ummælum Nóbelsverðlaunahafans Josephs Stiglitz um að Íslendingar eigi að halda í krónuna sína. Hann bar saman Svía og Finna, en báðar þjóðir glímdu við erfiða fjármálakreppu á níunda áratugnum. Svíar halda í krónuna sína og hafa um langt árabil búið við gott atvinnuástand og raunar þurft að flytja inn vinnuafl. Finnar eru með evru. Þar er viðvarandi atvinnuleysi upp á 10%.

Hitt er síðan dæmigert, að Steingrímur J. Sigfússon verður kindarlegur, þegar Stiglitz orðar þann kost, að Ísland losi um tengslin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS). Fyrir þá, sem muna það ekki, töldu vinstri-grænir undir forystu Steingríms J. óráðlegt að halla sér að AGS. Nú segir Steingrímur J. að menn verði að hugsa AGS-málið vel. Stjórn AGS hefur ekki treyst sér til að taka mál Íslands á dagskrá síðan stjórn mála hér komst í hendur Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J.