5.9.2009

Laugardagur, 05. 09. 09.

Mér sýnist á samtali þeirra Kolbrúnar Bergþórsdóttur og Þorsteins Pálssonar í Morgunblaðinu í dag, að Þorsteinn telji, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að rétta ríkisstjórninni hjálparhönd til að koma umsóknarferlinu gagnvart Evrópusambandinu af stað. Þetta er einkennilegt sjónarmið.

Ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar í ESB-málum geta sjálfum sér um kennt, hvernig málið hefur klúðrast. Óðagotið á alþingi, vesældarlegur texti í áliti meirihluta utanríkismálanefndar og málatilbúnaðurinn allur hefur í raun borið dauðann í sér. Að það sé hlutverk sjálfstæðismanna að blása lífi í andvana fædda aðildarumsókn er fjarri öllu lagi.

Aðildarsinnum innan Sjálfstæðisflokksins hefði verið nær að fylkja sér á bakvið samþykkt landsfundar flokksins og tryggja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu í því skyni að ná sem víðtækastri sátt í málinu. Í stað þess völdu þeir leið sammala.is og núverandi ógöngur.

Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, kemur í næstu viku með 2.500 spurningar til stjórnarráðsins. Embættismenn hafa fengið fyrirmæli um að svara þeim á methraða. Til hvers? Er ekki annar stjórnarflokkanna á móti aðild? Þarf hann lengri tíma til að máta hana?

Hér er tillaga um málsmeðferð í Icesave-málinu eftir samþykkt alþingis á fyrirvörunum: 

Íslensk stjórnvöld sendi skriflega orðsendingu til stjórnvalda í Bretlandi og Hollandi, þar sem tilkynnt er um fyrirvarana og þeir skilmerkilega tíundaðir. Óskað verði skriflegs svars frá Bretum og Hollendingum með samþykki þeirra, þar sem tekið yrði fram að fyrirvararnir séu jafngildir öðrum ákvæðum samkomulagsins og ekki beri að túlka nein ákvæði upphaflegs samningstexta á annan veg en leiddi af fyrirvörunum.

Á þennan hátt geta málsvarar fyrirvaranna á alþingi tryggt, að þeir verði örugglega virtir. Hér yrði einnig gengið til afgreiðslu málsins fyrir opnum tjöldum en ekki á lokuðum fundum. Icesave-málið er prófsteinn á heilindi ríkisstjórnarinnar við gæslu hagsmuna þjóðarinnar út á við. Falli hún á þessu prófi, fær hún einnig endanlega falleinkunn á ESB-prófinu, hvað sem spurningunum 2.500 líður.