Miðvikudagur, 02. 09. 09.
Í kvöld kl. 21.30 var ég með annan þátt minn á sjónvarpsstöðinni ÍNN og ræddi við Hannes Hólmstein Gissurarson umSvartbók kommúnismans, sem var að koma út hjá Háskólaforlaginu í þýðingu Hannesar. Hafi einhver verið í vafa fyrir þáttinn um skoðanir okkar Hannesar á kommúnismanum, var þeim vafa eytt í samtali okkar.
Ástæða er til að velta fyrir sér, hvernig staðið er að því á vegum Reykjavíkurborgar að halda götum, gangstéttum, bílastæðum og grænum svæðum hreinum. Þegar fjölgar í borginni eftir sumarleyfi eykst ruslið enn á þessum svæðum. Skólar ættu að hafa það sem hluta af kennslu sinni í lífsleikni að fela nemendum að halda lóðum og næsta umhverfi skólanna hreinu, á þetta bæði við um framhaldsskóla og grunnskóla. Þá verða seljendur matar og drykkjarvöru, sem unnt er að neyta utan dyra að bera ábyrgð á hreinlæti í næsta nágrenni sínu. Starfsmenn á vegum Reykjavíkurborgar verða að hætta að seta kíkinn á blinda augað gagnvart þessu rusli. Frágangur á ruslatunnum við biðstöðvar strætisvagna eða sundstaði er óviðunandi. Augljóst er, að stundum gera menn sér leik að því að opna þessar tunnur og draslið liggur síðan óhreyft jafnvel sólarhringum saman. Fyrir nokkrum misserum var kynnt átak til að setja nýja tunnur víðar en í miðborginni. Hvað varð um það? Ég hlakka til að sjá boðskap frambjóðenda í borgarstjórnarkosningunum um leiðir til að uppræta ruslið.
Í dag var skýrt frá svartri skýrslu OECD um efnahagsástandið hér á landi. Sérfræðingar OECD sjá ástæðu til að blanda sér í íslensk stjórnmál með því að hvetja til upptöku evru á grundvelli ESB-aðildar. Þeir gera þetta örugglega ekki nema vegna þess að ríkisstjórnin hefur gefið grænt ljós til þess. Sé svo ekki, ætti ríkisstjórnin að mótmæla þessari íhlutun í mál, sem ekki er á könnu OECD.
Steingrímur J. Sigfússon segir, að embættismenn ræði við Breta og Hollendinga um fyrirvara alþingis vegna Icesave-samninganna í kyrrþey! Hann viti ekki hvort hann eða Jóhanna Sigurðardóttir eigi eftir að ræða málið við stjórnmálamenn í löndunum. Sorgarsaga Icesave-málsins heldur áfram í höndum hinnar duglausu ríkisstjórnar.