30.11.2008 15:10

Sunnudagur, 30. 11. 08.

Háskólastarfsemi á Bifröst hefur verið öflug og er ánægjulegt að heimsækja staðinn og finna þann kraft, sem í honum býr. Kom mér nokkuð á óvart, að Lilja Mósesdóttir, sem kenndi við skólann, en er nú tekin til starfa við Háskóla Íslands, skyldi ýja að því í einhverri umsögn sinni eða ræðu vegna bankahrunsins, að undirrótin gæti leynst í skorti á hagfræðilegum eða viðskiptafræðilegum rannsóknum hér á landi meðal annars vegna háskóla á borð við Bifröst og Háskólann í Reykjavík.

Engum háskólamanni hér á landi, hvar sem hann starfar kom áreiðanlega til hugar, hvílík umskipti gætu orðið hér í fjármálalífinu á skömmum tíma, þótt ýmsir sæju blikur á lofti. Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst, var vissulega í þeim hópi.

SSF-blaðið, sem gefið er út af Samtökum starfsfólks fjármálafyrirtækja, birti í mars 2008 viðtal við Ágúst um framtíðarhorfur í fjármálageiranum. Hann var spurður, hve slæmt ástandið væri, hvort íslensk fyrirtæki væru á „heljarþröm og fjöldauppsagnir“ á næsta leiti. Segir blaðið, að Ágúst hafi svarað báðum spurningunum neitandi og hefur orðrétt eftir honum:

„Mörg blaðaskrifin eru yfirborðskennd og lýsa frekar því að vilja fjalla um spennu og ágreining eins og nútímafjölmiðlun snýst nær alfarið um hérlendis. Hins vegar tel ég að fjármálafyrirtæki muni fækka eitthvað fólki á næstunni og meira hugsa um kostnaðinn en minna um tekjuhliðina, sem hefur verið einblínt á til þessa. Þetta ástand leitar jafnvægis.“ svarar Ágúst og bætir við að tímabundin niðursveifla eftir mjög langt uppgangstímabil sé eðlileg, jafn eðlileg og rigning eftir langt góðviðristímabil. „En því má ekki gleyma að á eftir rigningunni kemur aftur sól.““

Ágúst vill að hugað sé að aðhaldi með ofurlaunum og kaupréttarsamningum og segir: „Það er gott fólk sem vinnur í fjármálageiranum hérlendis, bæði á toppnum og annars staðar, en þarna eru engin ofurmenni enda eru þau ekki til nema í teiknimyndasögum.“ Hann hvetur til þess, að yfirmenn fjármálafyrirtækja taki til varnar fyrir þau í fjölmiðlum og skýri stöðuna með upplýstum hætti, almenningur sé skynsamur og vilji ábyrgan málflutning um banka eins og annað.

Hinn 5. nóvember 2008 var rætt við Ágúst í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins í tilefni af frásögnum um framgöngu æðstu stjórnenda Kaupþings. Þá sagði Ágúst:

„Nei þeir eiga ekkert erindi. Þetta fólk á allt að fara. Nú gildir öllu að það er að hafa traust í viðskiptum. Við erum búin að missa mannorð okkar erlendis og það gengur þá ekki að við höldum áfram að grafa undan öllu trausti hér innanlands með því að láta það fólk vinna að því sem að hugsanlega hefur misnotað aðstöðu sína með þessum hætti eins og sagt hefur verið frá í fréttum. Það er ekki búið að dæma svosem í málinu en allt þetta fólk hvar sem það er á raunverulega að koma sér í burtu. Og við verðum að reyna að endurreisa þetta samfélag með nýju fólki. “