29.11.2008 18:04

Laugardagur, 29. 11. 08.

Á ruv.is má lesa í dag (feitletrun mín):

„Hörður Torfason, skipuleggjandi mótmælanna á Austurvelli segist búast við meiri mannfjölda en nokkru sinni, eða síðan 11.október þegar laugardagsmótælin hófust...Hörður segist vera í góðri samvinnu við lögregluna, hann ítrekar að fólk verði friðsamlegt. Hvort komi til átaka sé meira á ábyrgð lögreglunnar.“

Þarna birtir ruv.is endursögn af viðtali hljóðvarps ríkisins við Hörð í hádegisfréttum. Þegar á reyndi, hafði Hörður rangt fyrir sér um fjölda mótmælenda, þeir urðu færri en laugardaginn 22. nóvember. Fráleitt er að halda því fram, að það sé á ábyrgð lögreglu, hvort komi til átaka og Herði til álitshnekkis að fara með slík öfugmæli.

Í gær birtist mynd af lögreglumönnum í Morgunblaðinu með frétt um aukið launamisrétti karla og kvenna hjá hinu opinbera. Að birta þessa mynd með frétt um þetta efni er fráleitt, því að efni hennar á ekki við um lögregluna.

Í sjónvarpsauglýsingu er hvatt til þess að menn versli bók í Office one - hvers vegna er auglýsingin bara höfð á ensku? Þar mundu menn nota sögnina buy en ekki trade, þegar hvatt er til þess, að menn kaupi eitthvað í verslun. Málfátækt lýsir vissulega kreppu, en hún á ekkert skylt við bankahrun.

Kolbrún Bergþórsdóttir segir í Morgunblaðinu í dag:

„Steingrímur J. Sigfússon reiddist Birni Bjarnasyni á þingi og kallaði til hans fúkyrði og þreif svo í öxl Geirs Haarde. Geir fyrirgaf samstundis en ég veit ekki með Björn. Hann lítur stundum út eins og hann fyrirgefi ekki neitt. “

Þetta er dæmigert fjölmiðlahjal. Málið snýst hvorki um svip minn né fyrirgefningu Geirs. Það snýst um, að menn haga sér hvorki á þingi né annars staðar á þann veg, sem Steingrímur J. gerði.

Þegar Rudi Giuliani réðist gegn afbrotum í New York var það gert undir þeim formerkjum, að hvorki ætti að afsaka stór né smávægileg brot. Taka yrði á öllu. Hér hrópa menn á rannsókn og nauðsyn þess að kalla stjórnmálamenn og aðra til ábyrgðar - en síðan er samstundis tekið til við að bera blak af því, sem er ámælisvert, þótt smátt sé í sniðum. Var einhver að spyrja um trúverðugleika?

Í dag ritaði ég pistil á síðuna mína um LÍÚ og nýjan galdmiðil, vanda fjölmiðla, Bubba og byltinguna og Eið og sendiskýrsluna.