Fimmtudagur, 27. 11. 08.
Frumvarp forseta alþingis og flokksformanna um sérstaka rannsóknarnefnd vegna bankahrunsins var til fyrstu umræðu á alþingi í dag. Einnig var rætt um þingsályktunartillögu frá utanríkisráðherra um samninga vegna IceSave-reikninganna. Loks kom þingflokkur sjálfstæðismanna saman klukkan 18.00 og samþykkti, að lagt yrði fram frumvarp viðskiptaráðherra, þar sem heimild er veitt til að stjórna gjaldeyrisstreymi til varnar krónunni, þegar opnað verður fyrir viðskipti með gjaldeyri.
Þau koma þannig eitt af öðru fyrir þingið mál, sem snerta bankahrunið. Fráleitt er að láta eins og með því hruni hafi verið sveigt að rétti þingmanna til að flytja lagafrumvörp. Má helst skilja umræður í Spegli hljóðvarp ríkisins á þann veg, að alþingi eða íslenskir þingmenn standi eitthvað sérstaklega illa varðandi rétt þingmanna til að flytja frumvörp.
Fullyrðingar í þessa veru standast ekki og skrýtnast er að heyra þær frá þeim, sem telja bestu stjórnarhættina ríkja á vettvangi Evrópusambandsins. Í stjórnkerfi þess er það aðeins framkvæmdastjórnin, sem getur lagt löggjafarmál fyrir Evrópusambandsþingið, þingmenn þar hafa engan slíkan tillögurétt. Þeir geta hins vegar samþykkt bænaskrár til framkvæmdastjórnarinnar.
Eva Hauksdóttir, sem varð landsfræg um síðustu helgi í tengslum við árás á lögreglustöðina við Hverfisgötu, ritar í dag á vefsíðu sína:
„Þann 9. nóvember í fyrra gól ég seið gegn stóriðjustefnunni á Austurvelli. Vinnubrögðum alþingis var reist níðstöng, enda er hlutverk þingsins sem útverði lýðræðisins löngu orðið hlálegt. Ég særði vættir landsins til aðgerða“
Hún segir einnig:
„Nú þarf að gera enn betur og klára dæmið. Ég ætla því, þann 1. desember að halda vargastefnu við Stjórnarráðið. Ég mun særa fram reiði þjóðarinnar í vargslíki, vættum landsins til hjálpar.“