26.11.2008 21:58

Miðvikudagur, 26. 11. 08.

Eftir hrópin í þingsalnum á mánudag, þegar vantraustumræðan rann út í sandinn vegna framgöngu Steingríms J. Sigfússonar, hefur hann ásamt þingflokki vinstri/grænna fallist á, að lagt verði fram frumvarp um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls bankanna 2008 og tengdum atburðum. Var frumvarpið lagt fram á þingi að loknum fundum þingflokka í dag.

Vantraustið var flutt í trausti þess, að stjórnarandstöðunni tækist að kljúfa stjórnarflokkanna. Hið gagnstæða gerðist. Stjórnarandstaðan klofnaði og hlaut frekar háðulega útreið, þegar Steingrímur J. missti stjórn á skapi sínu.

Á vefsíðunni Aftaka eru þeir, sem telja sig og málstað sinn skipta miklu til stuðnings því, að fólk komi saman á Austurvelli síðdegis á laugardögum að hvatningu Harðar Torfasonar. Höfundar síðunnar lýsa sér þannig:

„Við erum partur af þeirri andstöðu sem nú vex með degi hverjum. Við sinnum okkar sjálfskipaða hlutverki í baráttunni og það gerum við stolt.“

Þeir á Aftöku vanda ekki kveðjurnar til „Björns Bjarnasonar, rasista og valdníðings, auk sérsveitarhvolpana hans, sem hlakkar í þegar þeim leyfist að leika sér með piparúða og önnur vopn.“

Þeir ávarpa mann, sem gert hefur myndband, sem þeim er ekki að skapi, á þennan veg:

„En sértu hræddur og óttistu byltingu og valdarán, skaltu vera það. Reiði fólks eykst og eykst. Fólk er til alls líklegr því það er orðið hundleitt á því að mótmæla á ,,hefðbundinn” hátt; hátt sem yfirvöld taka ekkert mark á.

 Pétur: Drífðu þig ofan í kjallara og feldu þig.“

Er þetta til marks um hið nýja lýðræði eða umræður í anda þess?