Mánudagur, 24. 11. 08.
Tillaga stjórnarandstöðunnar um vantraust á ríkisstjórnina var til umræðu á alþingi frá 13.30 til 19.00 og lauk henni með því, að tillagan var felld með 42 atkvæðum gegn 18. Athygli vakti, að Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður frjálslyndra, greiddi atkvæði gegn tillögunni, þótt Guðjón A. Kristjánsson, flokksformaður hans, væri flutningsmaður tillögunnar.
Ég var meðal ræðumanna og þegar ég lét þess getið, að ástæðan fyrir því, að ekki hefði verið flutt tillaga um rannsókn á bankahruninu á vegum alþingis, væri tregða Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri/grænna, til samkomulags um slíka tillögu á vettvangi alþingis.
Eftir að ég hafði sagt þetta umturnaðist Steingrímur J. í þingsalnum og öskraði að mér: Étt'ann sjálfur! Ég sneri mér að forseta þingsins, Ragnheiði Ríkharðsdóttur og spurði, hvort framkoma þingmannsins væri þess eðlis, að una ætti við hana. Forseti brást við og hélt ég áfram máli mínu en þá strunsaði Steingrímur J. ógnandi að ræðustólnum og mátti ætla, að hann hefði ekki stjórn á reiði sinni, þegar hann starði illilega til mín, áður en hann gekk að forsætisráðherra og hvíslaði einhverju í eyra hans. Ég sagði þessa framgöngu Steingríms J. enn vera til marks um, að með tillögunni vildi stjórnarandstaðan ýta undir ófrið í stað þess að stuðla að sáttum og samstarfi á þessum örlagatímum.
Hér er sagt frá þessu atviki á visir.is og hér er sagt frá því á mbl.is.