21.11.2008 18:38

Föstudagur, 21. 11. 08.

Flutti framsöguræðu fyrir frumvarpi um sérstakan saksóknara til að rannsaka sakamál vegna bankahrunsins. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar tóku frumvarpinu almennt vel nema Jón Magnússon, þingmaður frjálslyndra, sem gerði athugasemd við formið.
Orðaskipti urðu milli okkar Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um orð í ræðu Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, sl. þriðjudag. Taldi Siv, að þau mætti skilja á þann veg, að lögreglu hefði borist ábending vegna Kaupþings en ekki hefði verið brugðist við henni. Ég taldi hins vegar, að orðalag Davíðs gæfi til kynna, að ástæða hefði verið að snúa sér til lögreglu en það hefði ekki verið gert.
 
Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, vék ranglega að athugun á vegum ríkissaksóknara og taldi með vísan til ræðu, sem ég flutti 17. október á 100 ára afmæli lagakennslu, að ég kynni að vera vanhæfur til að skipa sérstakan saksóknara. Ég mótmælti þessari skoðun harðlega en þá stóð Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri/grænna, upp og svaraði með ásökunum um, að ómaklegt væri að víkja orðum að Atla, þar sem hann hefði horfið af þingfundi. Ég sagði, að menn gætu ekki hindrað, að þeim yrði svarað með því að hverfa af þingfundi.
 
Stjórnarandstaðan hefur flutt tillögu um vantraust á ríkisstjórnina. Hún krefst sérstakrar meðferðar á alþingi, þar á meðal útvarpsumræðna. Oftast snúast svona tillögur í höndum flutningsmanna og þjappa þeim saman, sem á er ráðist. Að líkindum eflir tillagan þannig samstarf stjórnarflokkanna, þótt flutningsmenn stefni að öðru.