20.11.2008 6:10

Fimmtudagur, 20. 11. 08.

Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins (ESB), sagði í samtali við fréttastofu RÚV, að það tæki að minnsta kosti fjögur ár, að Ísland yrði aðili að ESB, eftir að sótt yrði um hana, fyrst yrði Króatía aðili. Þetta hlýtur að koma þeim á óvart, sem hafa látið eins og dygði að smella fingri og við yrðum aðilar að ESB.

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri Granda, ritar grein um ESB-mál í Morgunblaðið í dag og minnir lesendur á, að mikilvægi sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum sé að aukast og nauðsynlegt sé að gæta hagsmuna hans í öllum umræðum um ESB-aðild. Stuðningsmenn hennar verði aldrei trúverðugir nema þeir takist á við þann vanda, sem sjávarútveginum verði búinn með aðild. Eggert Benedikt segir:

„Á sama hátt getur sjávarútvegurinn ekki hundsað kröfu ýmissa atvinnugreina og borgara landsins um stöðuga mynt sem treystandi sé á. Ef krónan er dauð og evran, og þar með ESB, er eini kosturinn, þá þýðir lítið að loka augunum fyrir því.“

Birt var niðurstaða könnunar Capacent Gallup frá 29. til 31. október á afstöðu Íslendinga til upptöku evru og aðildar að ESB. 1300 voru spurðir, svarhlutfall var 69,1%. Hlynnt aðild reyndust 51,8%, óviss 21,1% og andvíg 27,1%. Hlynnt evru 63,8%, óviss 15,7% og andvíg 20,5%.

Ég er ekki sammála Eggert Benedikt, að evra og ESB-aðild skuli lögð að jöfnu. Segi ég þetta enn, þrátt fyrir allar umræður undanfarið, sem hnigið hafa til annarrar áttar.

Í norska blaðinu Aftenposten birtist í dag grein eftir Janne Haaland Matlary, prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Ósló, undir fyrirsögninni: Hvað þýðir það fyrir Noreg ef Ísland gengur í ESB? Prófessorinn telur, að Íslendingar sæki um aðild að ESB, jafnvel fyrir jól, og hefur það eftir Percy Westerlund, sendiherra ESB á Íslandi með búsetu í Ósló. Þetta hafi sendiherrann sagt nýlega í gestafyrirlestri í háskólanum og talið, að Ísland yrði hugsanlega komið í ESB árið 2010. Ísland þyrfti að ná efnahagslegum stöðugleika og hann fengist með evrunni, að mati sendiherrans, og evran krefðist ESB-aðildar.

Prófessorinn segir, að mótmælt sé í þágu ESB-aðildar í Reykjavík, 70% þjóðarinnar vilji í ESB, Geir H. Haarde forsætisráðherra hafi skipað nefnd, sem ljúka eigi störfum á skömmum tíma, svo að stjórnmálamenn geti fótað sig á nýrri stefnu, ríkisstjórnin sé svo óvinsæl, að hún eigi sér fátt til bjargar, og ESB sé neyðarhöfn í ofviðrinu.

Í greininni er spurt, hvað leiða muni af íslenskri aðildarumsókn. Rætt verði um fisk í samningaviðræðunum og ESB verði með skýrar kröfur af sinni hálfu, sem muni fljótt hafa áhrif á norska fiskveiðihagsmuni. Íslendingar muni semja frá „dödens posisjon“, hvorki meira né minna, af því að þeir séu í raun gjaldþrota. Samningsniðurstaðan muni endurspegla þetta, jafnvel þótt Íslendingar njóti mikillar samúðar í Brussel.

Hér skal þessi grein ekki rakin frekar, en lýsingin er ekki beint uppörvandi séð með íslenskum augum. Hún er hins vegar í stíl við margt, sem sagt er hér á landi, þegar leitast er við að afla ESB-málstað stuðnings. Dregnar eru upp myndir, sem einkennast af ótta og gylliboðum.

Athyglisvert er, að norski prófessorinn og sendiherra ESB á Íslandi segja Íslendinga verða að leita á náðir Brussel-valdsins til að geta lifnað að nýju eftir dauðann. Þetta líkingamál um mátt og samúð manna í Brussel sýnir, hve sterka samningsstöðu ESB telur sig hafa.