19.11.2008 2:56

Miðvikudagur, 19. 11. 08.

Fór í hádeginu í alþingishúsið. Þegar að því kom, var fámennur hópur fyrir framan húsið, hélst fólkið í hendur og heyrðist mér einhverjir púa, þegar ég gekk í áttina að dyrum skálans, nýbyggingar við hlið þinghússins. Ég þekkti Ómar Ragnarsson og heilsaði honum, hélt síðan áfram för minni og varð að beygja mig meira en síðast, þegar svona hópur var við húsið, til að komast undir handlegg Ómars og þess, sem stóð við hlið hans. Þarna þekkti ég einnig Katrínu Jakobsdóttur, varaformann vinstri/grænna.

Skömmu eftir að ég hafði sest til matar í skálanum, kom Jón Magnússon, þingmaður frjálslyndra, og spurði mig, hvort ráðherrabíll fyrir utan væri á mínum vegum. Ég kvað já við því og sagði Jón mér þá, að kastað hefði verið í hann eggjum. Jón Geir, bílstjóri minn, fór á bílnum til að þrífa hann, en þegar ég gekk með Illuga Gunnarssyni alþingismanni út úr skálanum var enginn sjáanlegur við þinghúsið. Urðum við Illugi samferða í góða veðrinu út Austurstræti og upp Arnarhól.

Á mbl.is er sagt frá því, að samtökin Nýir tímar hafi staðið fyrir þessum aðgerðum við þinghúsið en þau berjist fyrir því að ríkisstjórnin víki og tímabundin þjóðstjórn verði skipuð. Að það markmið náist með því að kasta eggjum í ráðherrabíla, finnst mér ólíklegt.

Sagt var frá þessari færslu hér á síðuna á mbl.is og klukkan 20.30 höfðu nokkrir sagt álit sitt á fréttinni. Forvitnilegt er að kynnast hinum ólíku viðhorfum, sem birtast í blogginu um fréttina. Ummælin eru enn svæsnari hjá Agli Helgasyni eftir færslu hans um þessa frásögn mína. Egill telur, að vald ráðherra sjáist af því, hvar ráðherrabílum er lagt. Álitsgjafar hafa mörg viðmið við ályktanir sínar!

Hér má sjá myndir af því, hver stóð að eggjakastinu á mannlausan bílinn. Ekki er rétt að segja, að bíll sé grýttur, þegar kastað er í hann eggi, auk þess sem grýttur er með ý en ekki í.

Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður RIKK, rannsóknastofnu í kvenna- og kynjafræðum hjá Háskóla Íslands, var meðal ræðumanna á borgarafundinum á NASA að kvöldi mánudags 17. nóvember. Í ræðu sinni komst hún meðal annars svo að orði:

„Auk þess er ríkisstjórnin ekki hræddari en svo við helstu ógnina, Björninn sjálfan – og þá á ég við Rússland en ekki Björn Die Hard Bjarnason – að hún er tilbúin að þiggja lán frá Pútin til að bjarga fjárhagnum á Íslandi. Sem sagt „innrás“ rauðu hættunnar í boði Sjálfstæðisflokksins.“

Þegar ég las þetta, velti ég fyrir mér, hvort það hefði orðið rannsóknarefni hjá RIKK, ef karl hefði uppnefnt konu á þann hátt, sem Irma gerði í barátturæðu sinni.

Sigurlaug Ragnarsdóttir, talsmaður Nýrra tíma, sendi mér tölvubréf, þar sem sagði:

„Sk. eggjakastari sem kasti eggi í bifreið þína er ekki á okkur vegum og bið ég þig vinsamlegast að draga orð þín til
baka. Mótmælunum var lokið, fólk var að spjalla saman og ég tók persónulega ekki einu sinni eftir þessu. Þess fyrir
utan höfum við ljósmyndir af þessum dreng, þær geta Mikakael blaðamaður á DV sýnt þér. Þær sanna hver hann er
og að hann tilheyrir ekki okkar hóp - vildi einungis fá athygli.“

Við Sigurlaug erum sammála um, að eggjakast í ráðherrabíla leiðir ekki til stjórnarskipta. Sé það misskilningur hjá mér, dreg ég orð mín fúslega til baka.

Vegna færslunnar um eggjakastið fékk ég einnig þetta bréf:

„Nafn: Jón Benedikt Hólm
Netfang: nonniben@hotmail.com
Fyrirspurn: Sæll kallinn minn,heyrðu það var algerlega sóló act hjá mér að dundra eggjunum í bílinn OKKAR Björn minn,mótmælin voru búinn þegar eg missti vitið af (Réttlátri????) bræði,nyjir timar höfðu ekkert að gera með þetta,en ég er viss um að þið finnið einhverja skemmtilega leið til að refsa mér fyrir þessa alvarlegu aðför að lýðveldinu.afhverju þurfið þið rándýra bíla og einkabílstjóra????,hvernig væri að stíga af hrokastokknum og koma niður til okkar smælingjanna sem af einhverjum ástæðum(Hmmmmmmmm) eru soldið reiðir yfir þessu fábjanalega klúðri ykkar(annaðhvort viljandi eða þið eruð heimskari en hola í potti).......segið nú bara af ykkur en ekki ljuga í blöðin,þau eru fullfær um það sjálf!!!!!.Annars er eg alveg til í að spjalla við þig nánar um Bilderberg og eitt og annað slíkt minn kæri,kannski yfir eggjaköku;)
Með ást en töluvert lítilli virðingu
Jón B.Hólm varphæna) “

Sat fyrir svörum hjá Sölva Tryggvasyni í þættinum Ísland í dag á Stöð 2. Hann spurði mig einkum um það, sem ósagt var í ræðu Davíðs Oddssonar hjá viðskiptaráði í gær. Ég svaraði eftir bestu getu.

Það viðhorf er ríkt meðal fréttamanna og annarra, að ríkisstjórn sé upplýst um allt, sem inn á borð einstakra ráðherra kemur, eða fundi, sem einstakir ráðherrar eiga með stofnunum á þeirra vegum eða sérfræðingum. Svo er alls ekki. Hver ráðherra ber ábyrgð á sínum málaflokki og ríkisstjórn starfar ekki sem nefnd eða fjölskipað stjórnvald, þar sem ákvarðanir eru bornar undir atkvæði.

Mér þótti undarlegt, að Sölvi taldi, að hann þyrfti að fá símanúmer hjá mér til að afla frétta frá breskum ráðherrum og ég væri í raun betur búinn til að afla þeirra frétta en fjölmiðlamenn.