18.11.2008 8:35

Þriðjudagur, 18. 11. 08.

Björn Guðmundsson framahaldsskólakennari ritar grein í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni: Frjálshyggjuflónin og fúafenið. Þar ræðst hann að Sjálfstæðisflokknum og síðan Samfylkingunni og lýkur grein sinni á þessum orðum (feitletrun mín):

„En bæði sjálfstæðismenn og samfylkingarfólk ættu að hugsa til þess að almenningur mun þvinga fram kosningar með handafli ef þarf. Brynvarðir bílar Björns Bjarnasonar munu ekki koma í veg fyrir það.“

Þegar ég las lokasetningu greinarinnar, sem hér er feitletruð, taldi ég mig í raun ekki þurfa að taka mark á öðru, sem í henni stendur. Hvernig getur höfundur rökstutt þá skoðun, að brynvörðum bílum á mínum vegum verði beitt til að koma í veg fyrir, að hér verði efnt til kosninga?

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, flutti ræðu í morgun á fundi Viðskiptaráðs. Ræðan var fréttaefni allan daginn, enda hefur hún að geyma mat Davíðs á bankahruninu.

Davíð vék oftar en einu sinni á hlutverki fjölmiðla í ræðu sinni. Í gærkvöldi var haldinn um 700 manna borgarafundur á NASA. Þar var einnig rætt um hlut fjölmiðlamanna, eins og lýst er hér á vefsíðunni Nei.

Björg Eva Erlendsdóttir var meðal annars þingfréttari fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Hún sat fyrir svörum á NASA-fundinum í gær og á vefsíðunni Nei segir:

„Björg Eva Erlendsdóttir sagðist ætla að reyna að skýra hvers vegna fjölmiðlar séu ekki sterkari en raun ber vitni. Því miður hafi spillingin náð inn í fjölmiðlana – auðmenn hafi haft afskipti af ritstjórn. „Einn ætlaði að kaupa blað til að leggja það niður,“ sagði hún. „forysta Sjálfstæðisflokksins hefur árum saman haft puttana í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins. Sjálfstæðisflokkurinn fór mikinn á Ríkisútvarpinu ár eftir ár, fyrst sjónvarpinu en svo í fréttaflutningi öllum, svo liggur við að fréttastofan hafi orðið málgagn flokksins. Þeir sem ekki tóku þátt voru lagðir í einelti. Sumir hrökkluðust burt en aðrir þrauka þarna enn. Það hefur verið nauðsyn á flokksskírteinum á fréttastofum Sjónvarpsins síðasta áratug. Afskiptunum lauk aldrei.““

Ég skora á Björg Evu að rökstyðja þessa fullyrðingu sína um afskipti Sjálfstæðisflokksins með dæmum, því að þarna gefur hún til kynna að samstarfsmenn hennar hafi starfað sem handbendi Sjálfstæðisflokksins við flutning frétta.