15.11.2008 22:33

Laugardagur, 15. 11. 08.

Var í Hveragerði klukkan 13.00 og flutti ræðu hjá rannsóknarlögreglumönnum, ræddi embætti sérstaks saksóknara, endurskoðun lögreglulaga og skipan rannsókna á vegum lögreglu. Að loknu erindinu svaraði ég spurningum.

Deilt er um, hvað menn vissu í aðdraganda bankahrunsins og hvernig við skyldi brugðist fyrir utan gagnrýni á stjórnmálamenn og opinbera eftirlitsaðila.

Hitt er síðan sérstakt íhugunarefni, hvernig tekið er á málum á líðandi stundu, hvað sagt er og hvernig fjölmiðlar túlka atburði. Á leiðinni úr Hveragerði hlustaði ég á þátt á rás 1, Stjörnukíkinn, þar sem meðal annars komu fram sjónarmið 10. bekkinga á málefnum dagsins. Sumir sögðust vera hættir að hlusta á fréttir, af því að þær væru allttaf um það sama og neikvæðar. Fram kom, að á sínum tíma hefði verið rætt um fuglaflensinu og hættuna af henni en hún hefði ekki komið, þrátt fyrir hræðslufréttir í fjölmiðlum. Hvort eitthvað væri meira að marka þá núna?

Bloomberg er miðill, sem sérhæfir sig í fjármálafréttum. Þar birtist í gær frétt eftir Tasneem Brogger og Helgu Kristínu Einarsdóttur undir þeirri fyrirsögn, að Íslendingar mótmæltu því, að ríkisstjórnin gæti ekki náð samkomulagi við alþjóðagjaldeyrissjóðinn. ´

Sagt er, að þúsundir Íslendinga muni fara út á göturnar á morgun (það er í dag laugardag) og mótmæla því, að ríkisstjórninni haf ekki tekist að fá 6 milljarða dollara lán frá slþjóðagjaldeyrissjóðnum. Talið er, að 20.000 manns eða 6% þjóðarinnar muni fara út á götur Reykjavíkur og er Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, borinn fyrir þessum tölum. Haft er eftir honum, að ástæða fyrir þessum mikla fjölda mótmælenda sé reiði almennings vegna skorts á upplýsingum. Hann segir engan fá neinar upplýsingar!

Samkvæmt fréttum í kvöld er talið, að 6000 manns hafi verið á Austurvelli í dag. Líklegt er, að rifist verði um þessa tölu fram eftir vikunni og ætla ég alls ekki að blanda mér í þær deilur. Á hinn bóginn er ástæða til að undrast frétt eins og þá, sem Bloomberg birti og hafði eftir Andrési Magnússyni, ef þeir, sem að fréttinni standa, vilja hafa eigin áreiðanleika og Bloombergs í heiðri.

Bloomberg hafði ekki hugmynd um, hverju átti að mótmæla í dag og ég heyrði ekki um neinn. sem mótmælti seinagangi alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Heimildarmenn Bloombergs kunna þó að hafa verið meðal mótmælenda með spjöld í samræmi við efni fréttarinnar.

Á leiðinni frá Hveragerði hlustaði ég á Stjörnukíkinn á rás 1 eins og áður sagði en á leiðinni til Hvergerðis slökkti ég á þættinum Í vikulokin á rás 1 vegna vaðalsins í stjórnanda þáttarins. Er furðulegt að gestir þátta eigi fullt í fangi með að komast að vegna þarfar gestgjafans fyrir að láta ljós sitt skína.