10.11.2008 9:48

Mánudagur, 10. 11. 08.

Helsta forsíðufyrirsögn Fréttablaðsins er: Óttast hörð viðbrögð við einhliða upptöku. Með þessum orðum er vísað til svara Ólafs Darra Andrasonar, hagfræðings ASÍ, við spurningu blaðsins um einhliða upptöku evru. Hann óttast, að við fáum hörð viðbrögð frá Brussel.

1999 varð Bernard Kouchner, núverandi utanríkisráðherra Frakka, landstjóri á vegum Sameinuðu þjóðanna í Kosovo, hann ákvað einhliða upptöku þýsks marks þar í landi og síðan evru, án þess að verða ofsóttur af valdamönnum í Brussel. Kouchner er nú forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins. Er líklegt, að hann leggi fæð á Íslendinga fyrir að feta í fótspor hans?

Velvakandi Morgunblaðsins sefur á verðinum, ef marka má bréf í dálki hans í dag, þar sem Hafsteinn Sigurbjörnsson ræðst að mér og segir mig „endanlega“ firrtan „allri heilbrigðri skynsemi“ hvorki meira né minna. Hvers vegna? Jú með því að láta Valtý Sigurðsson, ríkissaksóknara, og Boga Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknara, rannsaka mál tengd bankahruninu og það, sem Hafsteinn kallar „fjárglæfra“ sona þeirra.

Allt er þetta rangt hjá Hafsteini. Ég fól þeim Valtý og Boga ekki neitt, þeir hafa alls ekki verið að rannsaka einstök mál og fimmtudaginn 6, nóvember ritaði Valtýr mér bréf og sagði forathugun á sínum vegum lokið.

Hafsteinn lýkur þessu dæmalausa bréfi sínu á þessum orðum:

„Dómsmálaráðherra skipar ríkissaksóknara til að rannsaka gjörðir sona sinna og þjóðin horfir orðlaus á. Hversu lengi ætlar þjóðin að láta þetta líðast?

Ef einhverjir ættu að vera orðlausir vegna þessa bréfs eru það þeir, sem vita hið sanna og rétta í málinu og hafa margsinnis leitast við að skýra frá því. Hafsteinn hefur því miður ekki fylgst með gangi málsins og Velvakandi lætur sig engu skipta, hvað birtist undir nafni hans.

Á tímum sem þessum er ábyrgð allra mikil, þar á meðal fjölmiðla, til að halda trúverðugleika sínum og trausti. Birting þessa bréfs í Velvakanda sýnir, að þar er allt birt, hvort sem það er satt eða logið, tímabært eða ótímabært. 

Páll Ásgrímsson hdl. skrifar grein í Morgunblaðið í dag um stjórnarsetu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem hann telur stangast á við lög. DV bregst illa við.

„Í miðopnu Morgunblaðsins 10. nóvember 2008 ritar Páll Ásgrímsson, héraðsdómslögmaður, mikla grein um stjórnarsetur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Páll er ósáttur við að Hlutafélagaskrá hafi komist að þeirri niðurstöðu að Jóni Ásgeiri sé heimilt að sitja í stjórnum hlutafélaga til næsta aðalfundar eftir að dómur gekk í Baugsmálinu sl. vor. Stofnunin er hinn opinberi eftirlitsaðili á þessu sviði og því athyglisvert að lögmaður úti í bæ skuli hafa svona sterka skoðun á málinu. Flestir sjá í gegnum fingur sér við Jón Ásgeir svo umsvifamikill sem hann er í viðskiptum þó að það taki einhvern tíma fyrir hann að skila af sér þeim fjölda stjórnarstarfa sem hann gegnir. Við nánari skoðun skýrist málið. Páll er nefnilega ekki bara einhver lögmaður úti í bæ og er reyndar ekki sjálfstætt starfandi héraðsdómslögmaður. Hann er framkvæmdastjóri lögfræðisviðs hjá Skiptum sem er móðurfélag Símans og því náinn samstarfsmaður Brynjólfs Bjarnasonar forstjóra Skipta og stjórnarformanns Símans. Páll situr einnig í stjórn Símans. Brynjólfur Bjarnason, yfirmaður Páls, hefur um áratugaskeið verið í hópi nánustu vina og samstarfsmanna Davíðs Odssonar, seðlabankastjóra. Í ljósi þessa er ekki að undra þó að hinn hógværi héraðsdómslögmaður reynist vera umskiptingur við nánari athugun og tilheyri náhirðinni í kringum Davíð. Það sem er ef til vill merkilegra er að heiti fyrirtækisins sem þeir starfa hjá, Brynjólfur og Páll, verður einhvern veginn skiljanlegra fyrir vikið. „Skipti” eru þá eftir allt saman aðeins stytting fyrir „umskiptingar”, eða hvað?“

Þessi viðbrögð DV eru til marks um hin sjálfráðu eða ósjálfráðu viðbrögð Hreins Loftssonar, eiganda DV, þegar minnst er á Jón Ásgeir Jóhannesson. 4. nóvember var rætt við Hrein á visir.is um kaup hans á DV af Jóni Ásgeiri, þar stóð meðal annars:

„Aðspurður hversu mikið hann greiðir fyrir viðskiptin vill Hreinn ekki gefa það upp. „En þetta eru raunveruleg viðskipti."“

Efaðist einhver um það?

Í hádegisfréttum Bylgunnar var hinn 5. nóvember sagt á þennan hátt frá kaupum Hreins á DV:

„Fjárfestingarfélag í eigu Hreins Loftssonar keypti í gær útgáfufélagið Birting. Hreinn segir erfiða tíma framundan en nauðsynlegt sé að einhver taki af sér að standa vörð um frjálsa fjölmiðlun.

Fjárfestingarfélag Hreins heitir Austursel, það mun í dag ganga formlega ganga frá kaupum á útgáfufélaginu Birtingi frá aðaleiganda þess Stoðum Invest sem að stærstum hluta er í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar en Hreinn Loftsson er þar einnig hluthafi. Birtingur gefur út dagblaðið DV og tímarit á borð við Mannlíf, Séð & Heyrt, Hús & Hýbíli og Gestgjafann. Hreinn er ekki alls ókunnugur þessum rekstri en hann hefur verið stjórnarformaður Birtings í um 2 ár. Í frétt á dv.is í gærkvöldi segir að með kaupum Hreins verði eignatengsl Baugs og umræddra fjölmiðla rofinn. En að sögn Hreins er málið aðeins flóknara en það.

Hreinn Loftsson, blaðaútgefandi: Það er auðvitað ekkert launungarmál að ég er stjórnarmaður í Baugi Group og var þar um nokkurt skeið stjórnarformaður, ég er einnig í hópi hluthafa þess félags þannig að auðvitað eru þessi tengsl til staðar ég er mjög áhugasamur um uppbyggingu fjölmiðla og undir þeim kringumstæðum sem eru núna í þjóðfélaginu þá tel ég mjög mikilvægt að gera allt sem að í mínu valdi stendur til þess að frjáls fjölmiðlun sé til staðar í landinu.“

Í Morgunblaðinu 5. nóvember sagði:

„„AUÐVITAÐ eru erfiðir tímar í útgáfumálum en það er algjörlega nauðsynlegt fyrir þjóðina að hafa frjálsa fjölmiðla í landinu, að þetta sé ekki allt ríkisrekið eða í eigu bankanna. Það er nú það sem mér gengur til,“ segir Hreinn Loftsson hæstaréttarlögmaður en félag í hans eigu, Austursel ehf., keypti í gær útgáfufélagið Birtíng sem gefur m.a. út DV og ýmis tímarit.

Austursel hefur átt hlut í Birtíngi um nokkurt skeið og segist Hreinn þekkja orðið vel til rekstrarins. Spurður um eignatengsl við Baug svarar Hreinn: „Ég er stjórnarmaður í Baugi þannig að auðvitað hef ég tengsl við Baug. En Birtíngur er annað félag, þar eru engin eignatengsl á milli svo þetta er ekki eitt af Baugsfyrirtækjunum.“