9.11.2008 18:47

Sunnudagur, 09. 11. 08.

Skrifaði pistil í dag um kjör Obama, fjórða valdið og þekkingarvald.

Í listasafni ASÍ er yfirlitssýning á verkum Gylfa Gíslasonar, teiknara og myndlistarmanns, sem andaðist árið 2006. Í tilefni af sýningunni hefur verið gefin út vegleg bók, Gylfi Gíslason, sem lýsir ævi, störfum og verkum Gylfa.

Ég kynntist Gylfa í störfum mínum í Þingvallanefnd. Hann hafði mikinn og einlægan áhuga á Þingvöllum og lagði mikið af mörkum til kynningarefnis um þjóðgarðinn auk þess að skapa mörg eftirminnileg listarverk tengd honum.

Á Kjarvalsstöðum er sýningin Augnasinfónía, myndlist Braga Ásgeirssonar í sextíu ár. Er fróðlegt að ganga um austursal safnins og kynnast verkum Braga allt frá fyrstu árum hans fram á þessa öld. Þá hefur verið gefin út vegleg sýningarbók um Braga og verk hans.

Bragi var í marga áratugi myndlistargagnrýni Morgunblaðsins og hefur ritað ógrynni af greinum í blaðið um sýningar heima og erlendis, strauma og stefnur.

Áhugi The New York Times á því, sem hér er að gerast, er ótrúlega mikill, eins og kemur fram á forsíðu blaðsins í dag. Önnur langa forsíðufréttin um Ísland á skömmum tíma.