6.11.2008 18:33

Fimmtudagur, 06.11.08

Í dag fékk ég bréf frá Valtý Sigurðssyni ríkissaksóknara, þar sem hann telur rétt að framkvæma þá tillögu mína að koma á laggirnar sérstöku embætti saksóknara. Ríkissaksóknari var ekki að rannsaka starfsemi bankanna, eins og skilja mátti af frétt í hljóðvarpi ríkisins, hann var að kortleggja umfang málsins, sem kann að koma inn á borð ákæruvaldsins og telur að tvennt þurfi að gera: Kalla til erlenda sérfræðinga, en umfang þess verkefnis, er hann að kanna, og hins vegar að samþykkja frumvarp, sem ég er með í smíðum um sérstakan saksóknara.

Ég tel, að þessi vinna Boga Nilssonar og Valtýs auðveldi okkur að takast á við framhaldið. Hvorugur var að rannsaka einstök mál. Það er ekki verkefni ríkissaksóknara heldur Fjármálaeftirlits og lögreglu og þangað eiga menn að snúa sér með kærur.

Næsta skref af minni hálfu er að leggja fram frumvarp um sérstakan saksóknara.

Hér birti ég útskrift af samtali Kristófers Helgasonar við mig í Bylgjunni þriðjudaginn 4. nóvember.

Í DV í dag er forsíðufrétt með mynd af mér um vígbúnað íslensku lögreglunnar til að lemja á almenningi. Byggist þetta á einhverri rannsókn blaðsins, sem á að hafa leitt í ljós endurgerð bíla fyrir lögregluna. Þetta er birt, þótt margar orðsendingar hafi gengið milli mín og blaðamannsins í gærkvöldi, þar sem ég sagðist ekki hafa neina vitneskju um þetta og spurði hann að lokum, hvort hann væri að skrifa um rétt land. Í tilefni af fréttinni hefur lögreglan sent frá sér tilkynningu í dag og segir ríkislögreglustjóri:

„Í DV í dag er fullyrt að lögreglan í landinu sé að "vígbúast gegn fólki".   Þetta er uppspuni.  Ekki er verið að útbúa nýja óeirðabíla fyrir lögreglu eða breyta strætisvagni í fjarskiptamiðstöð, eins og blaðið fullyrðir. “

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir:

„Vegna fréttar í DV í dag um meintan vígbúnað lögreglu skal tekið fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er ekki að láta útbúa eða breyta bifreiðum sem nota á við óeirðastjórn og er heldur ekki að láta breyta strætisvagni í fjarskiptamiðstöð.“

Uppspuni DV hefur gefið fjölmörgum nafnleysingjum í bloggheimi til að ausa yfir mig skít og skömm. Kannski var markmið blaðsins einmitt að kalla slíkt fram?

Það var skemmtileg upplyfting að sjá nýju Bond-myndina í kvöld. Mæli með henni fyrir þá, sem vilja dreifa huganum.