23.9.2008 20:51

Þriðjudagur, 23. 09. 08.

Ríkisstjórnin hélt 100. fund sinn í morgun og kom Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi forsætisráðherra, með ljúffenga, heimabakaða tertu til hátíðabrigða.

Síðdegis ræddi ég við þá Þorgeir og Kristófer í þætti þeirra, Reykjavík síðdegis, á Bylgjunni. Umræðurnar snerust um lögreglumál. Ég sagðist eiga ríkan þátt í þeim umræðum, sem nú færu fram, þar sem ég hefði í byrjun júlí sent frá mér minnisblað um breytingar á lögreglulögum og óskað umsagna fyrir 15. september. Þetta hefði hvatt menn til að velta öllum hliðum málsins fyrir sér og þegar kappsfullir menn ættu  í hlut setti keppnisskapið svip á umræðurnar. Ég væri hins vegar viss um, að niðurstaða næðist í sátt og samlyndi.

Danska ríkisstjórnin hefur samið við DF, danska þjóðarflokkinn, um útlendingamál, en síðan í júlí hefur Birthe Rönn Hornbech, innflytjendamálaráðherra, staðið í ströngu vegna ásakana um stjórnleysi í útlendingamálum og vandræða eftir dóm Evrópusambandsdómstólsins, sem braut í bága við danskar reglur um fjolskyldusameiningu, það er svonefnda 24 ára reglu.

ESB-dómstóllinn felldi 25. júlí dóm í svonefndu Metock-máli. Samkvæmt honum er ESB-ríkjum bannað að krefjast þess, að ríkisborgarar utan EES-svæðisins skuli hafa fengið löglegt dvalarleyfi í örðu EES-ríki til að fá viðurkennda fjölskyldusameiningu með ESB-borgara, sem hefur nýtt sér réttinn til frjálsrar farar.

Danska ríkisstjórnin segist munu fara að dómnum. DF heldur því fram, að útlendingamál séu undir dönsku fullveldi og þess vegna eigi ekki að fara eftir niðurstöðu í Metock-málinu.

Í því skyni að sporna gegn óheppilegum afleiðingum af Metock-dóminum - það er gegn aukinni hættu á ólöglegum innflytjendum, eru ríkisstjórnin og DF sammála um að setja útlendingastofnuninni nýjar eftirlitskröfur, sem munu hafa almenna þýðingu fyrir opinber afskipti af fjölskyldusameiningu í tengslum við ESB-borgara.