16.9.2008 22:18

Þriðjudagur, 16. 09. 08.

Klukkan 12.05 flutti ég erindi um kalda stríðið - dóm sögunnar á vegum Sagnfræðingafélags Íslands í þéttsetnum sal í Þjóðminjasafni Íslands. Að loknu máli mínu svaraði ég spurningum fundarmanna fram til klukkan 13.00.

Ég þakka sagnfræðingafélaginu fyrir að bjóða mér að ræða þessi mál, en í orðum mínum vék ég meðal annars að símhlerunum á árunum 1949 til 1968, sem hafa verið mjög til umræðu. Vænti ég þess, að fleiri spurningar tengdust þeim málum, en raun varð. Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði, spurði um eyðingu gagna lögreglustjórans í Reykjavík. Sagðist ég harma þá eyðingu, því að hún gæfi færi á að ræða um skjölin á allt annan veg, en ef þau væru aðgengileg til rannsókna. Þá spurði Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, hvort ég teldi eðlilegt, að sími Ragnars Arnalds, alþingismanns, hefði verið hleraður árið 1968. Ég sagðist ekki vita, hvort hann hefði verið hleraður, heimild til hlerunar væri ekki hið sama og hlerað hefði verið. Ég vitnaði í skýrslu nefndar um hleranamálin og taldi hana sýna, að þessar hleranir hefðu í raun verið lítilfjörlegar, ekkert segulband hefði verið notað og aldrei hlerað að næturlagi. Heimildin til hlerana hefði líklega fremur verið varúðarráðstöfun af hálfu lögreglu en hún hefði verið nýtt.

Klukkan 16.30 var ég í síðdegisútvarpi rásar 2 og svaraði spurningum Ragnhildar Thorlacius um fyrirlesturinn en þó einkum hernaðarleg umsvif Rússa nú á tímum og hvernig ætti að túlka þau hér á norðurslóðum.