12.9.2008 19:19

Föstudagur, 12. 09. 08.

Þingfundum lauk um hádegisbil í dag og kemur þing saman að nýju 1. október.

Í morgun leiddi ég qi gong æfingu í fyrsta sinn síðan við hófum að æfa að nýju eftir sumarhlé. Æfingar hófust fyrir viku, 8. september, og kemur sami trausti hópurinn saman rúmlega átta á morgnana í Von, húsi SÁÁ í Efstaleiti.

Ég sagði hópnum frá nýlegri grein í Weekendavisen um danskan líkamsræktarjötunn, sem missti meðvitund við æfingar og næstum heilsuna, en náði henni aftur með því að æfa qi gong og fagnar því innilega að hafa þjálfað sig svo mjög, að hann geti staðið í trjástöðunni, grunnæfingu qi gong, í klukkustund. Ég hef aldrei staðið svo lengi í þessari stöðu en get staðfest, að kyrrstaða með agaðri, djúpri öndun getur haft ótrúleg áhrif.