8.9.2008 22:15

Mánudagur, 08. 09. 08.

Íslenskir fjölmiðlar hafa ekki sýnt deilum Dana um útlendingamál neinn áhuga. Þær hafa staðið síðan 10. júlí, þegar Berlingske Tidende skýrði frá túlkun dönsku útlendingastofnunarinnar á reglum um fjölskylsusameiningu, sem snertir meðal annars 24-ára-regluna svonefndu. Birthe Rönn Hornbech, innflytjendaráðherra, hefur síðan sætt vaxandi gagnrýni fyrir viðbrögð sín í málinu.

Evrópusambandsdómstóllinn hefur ekki auðveldað dönsku ríkisstjórninni að glíma við málið, því að hann hefur haft fyrirvara Dana í útlendingamálum að engu og í raun svipt þá fullveldisrétti í þessum viðkvæma málaflokki, sem ræður úrslitum um stuðning danska þjóðarflokksins við ríkisstjórn Anders Foghs Rasmussens.

Stjórnmálaskýrendur í Danmörku segja, að Anders Fogh verði að fá ESB-valdið til að fallast á sjónarmið dönsku ríkisstjórnarinnar til að hann haldi stuðningi þjóðarflokksins.

48.8% danskra kjósenda vilja, að Danir haldi óbreyttri stefnu um fjölskyldusameiningu innflytjenda, hvað sem ESB-dómstóllinn segi, 37.5% segjast vilja sætta sig við niðurstöðu dómstólsins.

Hér á landi halda menn áfram að kenna Schengen-samstarfinu um dvöl ofbeldisfullra útlendinga frá Austur-Evrópu í landinu. Dvölin byggist ekki á neinum Schengen-reglum heldur aðildinni að evrópska efnahagssvæðinu (EES). Schengen-samstarfið snýst í grunninn um, að vegabréf eru ekki skoðuð á landamærum. EES-samstarfið veitir mönnum dvalarréttinn, þeir hafa hann hvort sem þeir framvísa vegabréfi eða ekki.

Einkennilegast er að sjá þá, sem hæst tala um nauðsyn Evrópusambandsaðildar, hneykslast á dvöl þessa fólks hér á landi. Halda þeir, að unnt verði að semja um undanþágu frá útlendingareglum ESB? Danir héldu það, en ESB-dómstóllinn hefur svipt þá réttinum til þess.