2.9.2008 16:35

Þriðjudagur, 02. 09. 08.

Dómsmálaráðherrar Norðurlanda funduðu til klukkan 16.00 í strandbænum Ystad í Svíðþjóð og síðan var okkur ekið í um klukkustund hingað á Kastrup, þar sem ég sit og bíð eftir kvöldvélinni heim eftir óvenju langa útvist.

Fyrir hádegi ræddum við baráttuna gegn barnaklámi, fengum skýrslu um niðurstöðu fundar norrænu ríkislögreglustjóranna um málið og gengum frá yfirlýsingu af okkar hálfu, sem birt verður á morgun. Lýsingar á því, hve ótt og títt er haldið uppi kynferðislegri áreitni gegn börnum á netinu er í einu orði sagt óhugnalegt. Til að náð sé árangri verða viðbrögðin að vera fjölþjóðleg og stigum við enn skref til að efla norrænt samstarf á þessu sviði á ráðherrafundinum.

Það kom minn hlut að hafa framsögu um alþjóðlega, skipulagða glæpastarfsemi og urðu líflegar umræður um þann málaflokk og hvernig þessi ófögnuður blasir við ráðherrum landanna.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur farið um landið undanfarið og kvartað undan aðgerðarleysi stjórnvalda í efnahagsmálum. Er með ólíkindum, hve þessi innistæðulausi áróður hefur gengið lengi og virðist Guðni verða farinn að trúa honum. Guðni er hins vegar ekki hlutlaus, það er hins vegar greiningardeild Glitnis.

Í Morgunkorni Glitnis, sem greiningardeild bankans gefur út, er í dag fjallað um þær fullyrðingar stjórnarandstöðunnar að ríkisstjórnin hafi sýnt aðgerðarleysi á erfiðum tímum í efnahagsmálum. Þar segir að þegar litið sé í baksýnisspegilinn komi á daginn að stjórnvöld hafi vissulega brugðist við breyttum aðstæðum í hagkerfinu með ýmsum hætti undanfarna mánuði.

Talið um aðgerðaleysi fær ekki háa einkunn hjá greiningardeildinni. Hún felldi Guðna á prófinu í miðjum áróðursleiðangri hans.