26.2.2008 22:00

Þriðjudagur, 26. 02. 08.

Í dag féll sögulegur dómur í héraðsdómi Reykjavíkur, þegar Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari dæmdi bloggara miskabætur vegna ummæla annars bloggara. Ég hef lengi talið, að höfundar væru ekki síður ábyrgir orða sinna í netheimum en annars staðar. Dómarinn er sama sinnis. Nú ætti einhver að láta reyna á ábyrgð þeirra, sem halda úti vefsíðum, þar sem nafnleysingjar vega að samborgurum sínum með dónaskap og óhróðri.

Ný jafnréttislög voru samþykkt á alþingi í dag. Skyldi það ekki endanlega staðfesta, að hin eldri voru barns síns tíma?

Árni Páll Árnason, varaformaður utanríkismálanefndar alþingis, flutti þau varnaðarorð í hljóðvarpi ríkisins í morgun, að varasamt væri að viðurkenna sjálfstæði Kósóvó, nema hugað yrði að minnihluta Serba. Ef þessi rök hefðu verið notuð til varnar minnihluta Rússa í Eystrasaltsríkjunum, hefði Ísland ekki verið í fremstu röð við viðurkenningu þeirra.