25.2.2008 19:05

Mánudagur, 25. 02. 08.

Í dag svaraði ég fyrirspurn á alþingi frá Ellert B. Schram, þingmanni Samfylkingar, um pókerspil. Sagðist ég vilja tryggja að íslensk lög kæmu til móts við mikinn og alþjóðlegan áhuga á póker, hefði ég beint óskum þess efnis til nefndar á vegum dómsmálaráðuneytisins undir formennsku Páls Hreinssonar hæstaréttardómara, en hún mun gera tillögur um breytingar á happdrættislöggjöfinni.

Á mbl.is má lesa þetta: „Olíuflutningar um íslenska lögsögu frá norðvesturhluta Rússlands til Vesturlanda hafa ekki aukist undanfarin ár þvert á væntingar. Siglingamálastofnun segir, að varla sé útlit fyrir mikla eða skyndilega aukningu í útskipun á olíu frá Barentshafi nema stefnubreyting verði hjá stjórnvöldum í Rússlandi.

Stofnunin segir, að væntingar um aukna olíuflutninga hafi aðallega byggt á áætlunum rússneska olíufélagsins Yukos og fleiri aðila um að leggja flutningslögn frá olíuríkum svæðum Síberíu vestur og norður á bóginn til Murmansk. Forsvarsmaður Yukos hafi síðan lent í fangelsi og þessar áætlanir urðu að engu.“

Hvað sem líður þessum vangaveltum siglingamálastofnunar kemur fram í fréttinni, að fleiri olíuskip frá Barentshafi hafi farið vestur um haf 2007 (43) en árið 2006 (36).

Nýlega sagði ég frá því hér á síðunni, að þyrla landhelgisgæslunnar hefði sótt norskan hafnsögumann í gasflutningaskipið Arctic Discoverer, sem var á leið vestur um haf frá Mjallhvítarsvæðinu fyrir norðan Noreg. Koma skipsins til Cove Point í Maryland í Bandaríkjunum vakti athygli, því að þetta var í fyrsta sinn, sem gas var flutt þessa leið yfir N-Atlantshaf.